Bersýnilega kom í ljós á árinu 2021 hve hagsmunir bankans og viðskiptavina eru samtvinnaðir. Þegar viðskiptavinum bankans vegnar vel þá vegnar bankanum vel. Í góðu samstarfi við viðskiptavini kom Arion banki að fjölmörgum spennandi verkefnum. Árið einkenndist af miklum umsvifum í ráðgjöf og lánveitingum til fyrirtækja. Að sama skapi hefur bankinn aldrei áður lánað jafnháar fjárhæðir í íbúðalánum til einstaklinga sem voru virkir á fasteignamarkaði. Bankinn náði öllum helstu rekstrarmarkmiðum sínum á árinu. Hagnaður bankans nam 28,6 milljörðum króna og arðsemi eigin fjár var 14,7% sem er nokkuð yfir markmiðum. 

Arion banki var valinn banki ársins 2021 á Íslandi af fjármálatímaritinu The Banker og fékk innlend viðskiptaverðlaun í árslok. Viðurkenningar sem eru afrakstur vinnu samstillts hóps starfsfólks.

Sameiginlegar framfarir

Okkar hlutverk er að styðja viðskiptavini bankans í þeirra verkefnum og stuðla þannig að vexti þeirra og velgengni. Í krafti samstarfs við viðskiptavini okkar, og með fjárfestingum þeirra og uppbyggingu, leggjum við grunn að framförum hér á landi – samfélaginu öllu til góða. Á þessu ári unnum við með fjölda fyrirtækja að spennandi og umfangsmiklum verkefnum eins og útboð Arctic Fish, Play, Íslandsbanka og Solid Clouds eru góð dæmi um. Einnig kom bankinn að lána- og ráðgjafarverkefnum stórra fyrirtækja í lyfja-, smásölu-, fjarskipta- og byggingageirunum. Bankinn fjármagnaði að auki fjárfestingu Norðuráls í nýrri framleiðslulínu sem mun draga verulega úr orkunotkun í framleiðslu á álstöngum og er með mun lægra kolefnisspor en ef framleiðslan færi fram erlendis. Lánið var fyrsta nýja græna fyrirtækjalánið okkar sem fellur undir heildstæða græna fjármálaumgjörð sem Arion banki gaf út í sumar.

Markvissar áherslubreytingar, mikil vinna og metnaður öflugs hóps, einfaldara verklag og aukið umboð starfsfólks hefur skapað grundvöll mikils árangurs fyrirtækjaþjónustu bankans. Við leggjum okkur fram um að vera öflugur samstarfsaðili – sem er lykillinn að sameiginlegum árangri okkar og viðskiptavina okkar.

Farið fram úr markmiðum

Arion banki náði öllum helstu rekstrarmarkmiðum sínum á árinu 2021. Arðsemi eiginfjár var 14,7% sem er vel yfir 10% markmiði bankans fyrir árið 2021. Öll tekjusvið bankans náðu sínum afkomumarkmiðum og margvíslegur árangur náðist í rekstrinum. Til að mynda hækkuðu innlán bankans hlutfallslega meira en hjá keppinautum okkar. Markaðshlutdeild bankans í bílalánum til einstaklinga hefur aldrei verið jafnhá og voru grænu bílalánin sérstaklega vinsæl. Árið er enn eitt metárið í íbúðalánum en bankinn lánaði alls 211 milljarða króna í íbúðalán og óx íbúðalánasafn hans um 85 milljarða króna.

Arion banki var að auki með hæstu hlutdeild í miðlun hlutabréfa í kauphöll sjötta árið í röð. Metfjöldi nýrra viðskiptavina gekk til liðs við einkabankaþjónustu okkar og eignir í stýringu einkabankans jukust um 30% og hjá eignastýringu fagfjárfesta jukust þær um 19%. Alls jukust eignir í stýringu hjá bankanum um 19,5% á árinu.

Ný þjónusta – Arion Premía

Arion banki leggur sérstaka áherslu á að þjóna þeim viðskiptavinum sem þurfa fjölbreytta fjármálaþjónustu – umsvifamikla viðskiptavini – og vill vera þeirra fyrsti kostur. Á árinu settum við á laggirnar nýja þjónustu – Arion premíu – sem er sérstaklega sniðin að þessum hópi viðskiptavina. Nýja þjónustan hefur farið vel af stað og njóta nú þegar yfir tvö þúsund viðskiptavinir premíu þjónustu bankans.

Besta bankaappið enn eitt árið

Fimmta árið í röð er Arion banki með besta bankaappið að mati svarenda í könnun MMR. Við höfum haft forystu hér á landi á sviði stafrænnar þjónustu og munum halda áfram á þeirri braut. Á árinu bættum við hlutabréfa- og sjóðaviðskiptum í appið og þannig meira en þrefaldaðist fjöldi viðskipta með hlutabréf í gegnum netbanka og app frá fyrra ári. Lífeyrismál í appinu halda áfram að vekja lukku og hefur sala lífeyrissamninga og flutningar á inneign frá keppinautum aukist til muna. Við sjáum af þessum tveimur nýjungum hversu vel viðskiptavinir okkar kunna að meta það þegar við einföldum og gerum aðgengilega þá þjónustuþætti sem í hugum margra eru flóknir og fjarlægir. Framboð á fjölbreyttri fjármálaþjónustu í gegnum eina bestu stafrænu þjónustuleið landsins er og verður einn okkar helsti styrkleiki.

Sókn á tryggingamarkaði

Arion banki og Vörður, dótturfélag bankans, hafa einsett sér að auka samstarf sitt um sölumál og rekstur innviða. Samstarfið fer vel af stað en Vörður hefur nú flutt starfsemi sína í höfuðstöðvar Arion banka, Borgartúni 19. Við sjáum þegar jákvæð merki aukins samstarfs í sölu trygginga, bæði til einstaklinga og fyrirtækja. Þannig erum við strax farin að sjá ábata af samstarfi félaganna og ég er sannfærður um að tækifærin sem felast í samstarfinu og samvirkninni séu mikil. Þar gegna hinar öflugu stafrænu sölu- og þjónustuleiðir okkar auðvitað mikilvægu hlutverki. Einnig sjáum við spennandi tækifæri fyrir Vörð á fyrirtækjamarkaði þar sem tengsl bankans og reynsla munu nýtast vel.

Þannig erum við strax farin að sjá ábata af samstarfi félaganna og ég er sannfærður um að tækifærin sem felast í samstarfinu og samvirkninni séu mikil. Þar gegna hinar öflugu stafrænu sölu- og þjónustuleiðir okkar auðvitað mikilvægu hlutverki.

Enn betri þjónusta

Við gerðum ákveðnar skipulagsbreytingar á árinu sem undirstrika áherslu okkar á að bæta þjónustu bankans enn frekar. Snemma árs sameinuðum við alla fyrirtækjaþjónustu bankans á höfuðborgarsvæðinu með það að markmiði að samræma og styrkja þjónustuna og auka hlutdeild bankans hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Nú í haust stofnuðum við svo sérstakt svið sem við köllum upplifun viðskiptavina og fjölgaði við það um einn í framkvæmdastjórn bankans. Markmiðið er að bæta enn frekar upplifun viðskiptavina í gegnum allar þjónustuleiðir okkar. Þetta eru mikilvæg skref sem styrkja okkur á þeirri vegferð sem fram undan er varðandi eflingu þjónustunnar og upplifun viðskiptavina.

Vandasamt verk

Um nokkurt skeið höfðu félög í söluferli neikvæð áhrif á afkomu bankans. Annars vegar var um að ræða dótturfélag bankans, Valitor, og hins vegar yfirtekin félög, fyrst og fremst kísilverksmiðjan í Helguvík og ferðaskrifstofur á Norðurlöndum. Á árinu náðust mikilvægir áfangar þegar samningar náðust um kaup Rapyd á Valitor, um kaup Ferðaskrifstofu Íslands á rekstri Heimsferða og sölu á hlut bankans í dönsku ferðaskrifstofunni Bravo Tours 1998. Samningar um sölu Valitor og Heimsferða eru með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Eftir stendur kísilverksmiðjan í Helguvík. Bankinn hefur allt frá árinu 2018 unnið að því að koma málefnum kísilsverksmiðjunnar í viðunandi farveg. Í ljósi þeirra hrakfara sem einkenndu starfsemi verksmiðjunnar skil ég vel að margir íbúar Reykjanesbæjar gjaldi varhug við frekari starfsemi. Í innviðum fyrirtækisins í Helguvík felast hins vegar umtalsverð verðmæti sem okkur ber skylda til að kanna hvort unnt sé að nýta með skynsömum hætti og farsæl reynsla af rekstri kísilvera er skilyrði sem bankinn hefur sett mögulegum kaupendum. Unnin hefur verið úrbótaáætlun með það að markmiði að ný verksmiðja standist ýtrustu gæða- og umhverfisstaðla. Við höfum átt viðræður við fjölmarga áhugasama aðila og skoðað ýmsa valkosti, m.a. rætt við Reykjanesbæ um að finna svæðinu nýtt hlutverk. Þessar viðræður skiluðu þó ekki niðurstöðu. Nú í upphafi árs 2022 undirrituðu hins vegar Arion banki og PCC viljayfirlýsingu um möguleg kaup PCC á verksmiðjunni. PCC rekur kísilver á Bakka við Húsavík og býr því yfir góðri reynslu af rekstri kísilvers hér á landi í sátt við nærumhverfið. Okkar hugur stendur til þess að niðurstaðan – hver sem hún verður – verði í sem mestri sátt við alla haghafa.

Áhersla á fjölbreytni og jafnrétti

Arion banki hefur um árabil lagt ríka áherslu á jafnrétti í starfsemi sinni. Á undanförnum árum hefur höfuðáherslan beinst að því að einstaklingar fái greidd jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf. Bankinn hlaut fyrst jafnlaunavottun VR árið 2015 og jafnlaunamerki velferðarráðuneytisins árið 2018. Við síðustu jafnlaunaúttekt var óútskýrður launamunur innan bankans fyrir jafnverðmæt störf kominn niður í 0,1%. Á árinu 2020 undirritaði bankinn viljayfirlýsingu um Jafnvægisvogina þar sem fram kemur að við ætlum að vinna markvisst að því að jafna hlut kynjanna í efsta lagi stjórnunar. Bankinn hefur jafnframt fengið viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar undanfarin tvö ár.

Á árinu hlaut bankinn hæstu einkunn – einkunnina „framúrskarandi“ – í UFS áhættumati (umhverfis- og félagsþættir og stjórnarhættir) íslenska reitunarfyrirtækisins Reitun. Nokkuð sem við erum stolt af.

Á árinu hlaut bankinn hæstu einkunn – einkunnina „framúrskarandi“ – í UFS áhættumati íslenska reitunarfyrirtækisins Reitun. Nokkuð sem við erum stolt af.

Í nýrri jafnréttis- og mannréttindastefnu og aðgerðaáætlun bankans er lögð aukin áhersla á að jafna kynjahlutföll innan bankans, ekki einungis á meðal stjórnenda heldur einnig innan starfaflokka, nefnda og starfseininga. Ein þeirra aðgerða sem við kynntum til leiks á árinu er að tryggja starfsfólki 80% launa í fæðingarorlofi í sex mánuði. Þannig mun bankinn, þegar við á og í samræmi við reglur Fæðingarorlofssjóðs, greiða starfsfólki í fæðingarorlofi sérstakan viðbótarstyrk. Styrkurinn kemur til viðbótar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og kjarasamningsbundnum styrkjum svo að laun í fæðingarorlofi komist sem næst 80% launa. Jafnframt hvetur bankinn starfsfólk til að nýta fæðingarorlofsrétt sinn að fullu. Okkar langtímamarkmið með þessari aðgerð er að fleiri feður fari í fæðingarorlof og að konum í hópi stjórnenda fjölgi enn frekar.

Nýsköpun í fjármögnun bankans

Arion banki gaf á árinu út tímamótaskuldabréf, sértryggða útgáfu í evrum. Þetta var fyrsta sértryggða útgáfa bankans í evrum. Naut bankinn betri kjara en nokkur íslenskur aðili – að íslenska ríkinu meðtöldu – hefur fengið á erlendum lánsfjármörkuðum á síðustu 13 árum. Einnig gaf bankinn út sín fyrstu grænu skuldabréf, bæði í evrum og íslenskum krónum. Nýjungar sem þessar, ásamt vexti í innlánum, eru sérstaklega mikilvægar þar sem þær lækka fjármögnunarkostnað bankans og efla þar með samkeppnishæfni okkar enn frekar.

Sterk heild

Sá árangur sem bankinn náði á árinu gerist ekki af sjálfu sér. Starfsfólk bankans og viðskiptavinir mynda saman sterka heild sem sækir fram og nær árangri. Með skýra sýn, markvissa starfskjarastefnu þar sem hagsmunir starfsmanna og annarra hagaðila eru samtvinnaðir og metnaðarfull markmið náðum við góðum árangri og við erum staðráðin í að halda áfram á sömu braut.

Ég þakka starfsfólki bankans, stjórn og viðskiptavinum fyrir afar gott samstarf á árinu.