Dóttur- og eignaumsýslufélög

Arion banka samstæðan samanstendur af móðurfélaginu Arion banka og dótturfélögunum Stefni og Verði tryggingum. Greiðslulausnafyrirtækið Valitor sem hefur verið í söluferli undanfarin ár var selt á árinu, en salan er háð samþykkir Samkeppniseftirlitsins. Dótturfélögin Vörður og Stefnir gegna mikilvægu hlutverki í þjónustuframboði bankans og framtíðarstefnu. Saman bjóða Arion banki og dótturfélög viðskiptavinum sínum heildstæða fjármálaþjónustu í gegnum fjölbreyttar og þægilegar þjónustuleiðir. Vörður og Stefnir eru til húsa í höfuðstöðvum Arion banka. Eignarhaldsfélögin Landey, Stakksberg og Sólbjarg eru í eigu Arion banka og voru stofnuð utan um yfirteknar eignir sem ýmist hafa verið seldar eða eru í söluferli.

Dótturfélög

Vörður tryggingar

Vörður tryggingar hf. er alhliða vátryggingafélag sem býður þægilegar tryggingalausnir fyrir heimili og fyrirtæki. Á undangengnum árum hefur orðið gríðarleg fjölgun í hópi viðskiptavina Varðar og voru viðskiptavinir félagsins 64 þúsund í árslok 2021. Markaðshlutdeild félagsins hefur vaxið jafnt og þétt en með nánara samstarfi við Arion banka hyggst félagið halda markaðssókn sinni áfram. Starfsmenn Varðar voru 109 í árslok.

Annað árið í röð þurftu viðskiptavinir og starfsfólk Varðar að haga samskiptum sínum út frá takmörkunum af völdum kórónuveirunnar á hverjum tíma. Segja má að það jákvæða í stöðunni hafi verið að nokkur reynsla hafði safnast upp frá árinu á undan. Þó að einhverjar brotalamir hafi eflaust mátt finna á þjónustu gekk hún engu að síður vel miðað við aðstæður. Þær stafrænu lausnir sem þróaðar hafa verið á undanförnum árum hafa reynst vel en viðskiptavinir geta með hjálp þeirra leyst úr mörgum sinna erinda hvenær sólarhringsins sem er. Markmið félagsins með þróun stafrænna lausna er að fjölga þjónustuleiðum og gera þær aðgengilegar á öllum tímum. Áfram verður haldið á þeirri braut.

Sjálfbærni og samfélagsábyrgð

Undir lok árs fékk Vörður hvatningarverðlaun Háskóla Íslands og Samtaka atvinnulífsins fyrir framlag sitt til jafnréttismála. Í rökstuðningi dómnefndar kom meðal annars fram:

„Vörður hefur unnið markvisst að jafnrétti innan fyrirtækisins undanfarin ár. Félagið hefur einsett sér að vera til fyrirmyndar í jafnréttismálum í íslensku atvinnulífi og hvatt aðra til hins sama. Félagið hefur hlotið 10 af 10 mögulegum í GEMMAQ kynjakvarðanum og þá hefur félagið lagt sig fram við að fá vottanir og innleiða hugbúnaðarlausnir sem stuðla að auknu jafnrétti. Félagið telur að starfshættir þess stuðli nú að sanngirni og jafnrétti þar sem áherslan á jafnan rétt kvenna og karla sé sýnileg í allri starfsemi fyrirtækisins. Þá er það einnig markmiðið að útrýma kynbundinni mismunun sé hún til staðar og stuðla að jafnræði og mannréttindum í hvívetna. Loks hefur félagið sett sér einnig metnaðarfull markmið í jafnréttismálum til framtíðar.“

Viðurkenningin er staðfesting á því góða starfi sem unnið hefur verið á undanförnum árum og og er starfsfólki jafnframt mikil hvatning til að halda áfram á sömu braut. Áfram mun Vörður vinna að verkefnum sem taka mið af sjálfbærni og samfélagsmálum og horfa til heilla fyrir íslenskt samfélag.

Á árinu hlaut Vörður öðru sinni Jafnvægisvog Félags kvenna í atvinnurekstri (FKA), fyrirtækið var þriðja árið í röð í hópi fyrirtækja ársins hjá VR og hlaut að nýju viðurkenningu sem fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum. Þessar viðurkenningar, eins og sú sem nefnd var hér að ofan, eru mikilvægar því þær eru öllum hvatning til að halda áfram að vinna að umbótum. Upplýsingaöryggi skiptir miklu máli í rekstri tryggingafélags en félagið hefur verið vottað samkvæmt ISO 27001, stjórnkerfi upplýsingaöryggis, frá árinu 2016.

Rekstrarafkoma

Eins og á undangengnum árum gekk rekstur Varðar vel á árinu 2021. Samfara aukinni virkni í samfélaginu jókst fjöldi tjóna nokkuð eða um 600 og fór heildarfjöldi tjóna yfir 19.000. Tjónakostnaður hækkaði um 13% frá fyrra ári. Engin stórtjón féllu á félagið ef undanskilið er 75 mkr. vatnstjón sem varð hjá mannlausu hóteli. Til mótvægis við þessa þróun tjóna jukust iðgjöld félagsins umtalsvert en góð fjölgun varð í viðskiptavinahópi félagsins og á það jafnt við um heimili og fyrirtæki í viðskiptum. Heildarafkoma af rekstrinum var góð og munar þar mestu um góða afkomu af fjárfestingaeignum, hlutabréfum sérstaklega.

Verkefnin fram undan

Haldið verður áfram á stafrænni vegferð en stafrænar lausnir eru hugsaðar sem viðbót við aðrar hefðbundnari lausnir þar sem viðskiptavinir hafa aðgang að sérfræðingum félagsins. Á nýju ári verður samstarf við Arion banka aukið til muna og verður lausnaframboð hugsað út frá því að viðskiptavinir beggja fyrirtækja geti sótt alla fjármálaþjónustu á einn stað. Markið er sett hátt en stefnt er að því að félagið verði innan nokkurra ára þriðja stærsta tryggingafélagið á Íslandi.

Stefnir

Stefnir hf. er eitt elsta sjóðastýringarfyrirtæki landsins og fagnaði 25 ára afmæli sínu árið 2021. Stefnir byggir á farsælli og verðmætri sögu og hefur skapað virði með viðskiptavinum sínum í áratugi. Stefnir hefur verið leiðandi í vöruþróun á sjóðastýringarmarkaði og skapað árangur með ábyrgum hætti fyrir viðskiptavini sína með sterkri liðsheild og teymisvinnu. Félagið er að fullu í eigu Arion banka og tengdra félaga og starfsstöðvar félagsins eru til húsa í höfuðstöðvum bankans. Eignir í stýringu félagsins eru rúmir 288 milljarðar og eru í eigu fjölbreytts hóps fjárfesta, allt frá einstaklingum upp í stærstu fagfjárfesta landsins. Í árslok 2021 voru 21 starfsmaður hjá Stefni.

Eignir í stýringu
Milljarðar króna

Eignir í virkri stýringu jukust á árinu um rúma 58 milljarða króna eða úr tæpum 230 milljörðum króna í 288 milljarða króna. Skýrist þriðjungur af aukningunni með innflæði í nýjar afurðir auk góðrar ávöxtunar í öllum eignaflokkum, sérstaklega hlutabréfum. Árið 2021 fjölgaði sjóðfélögum hjá Stefni verulega, m.a. vegna vel heppnaðrar markaðssóknar, aukinnar verðbréfavitundar almennings og þess að sjóðir Stefnis urðu aðgengilegir í appi Arion banka. Dreifing eignaflokka í stýringu er góð og tekjusamsetning félagsins í samræmi við markmið stjórnar.

Nánar má lesa um sjóði Stefnis í umfjöllun um Markaði.

Ábyrgar fjárfestingar og hlutverk Stefnis

Hlutverk Stefnis er að stýra fjármunum í eigu viðskiptavina með hagsmuni þeirra að leiðarljósi. Ábyrgar fjárfestingar, fjölbreyttir fjárfestingarkostir og ítarleg upplýsingagjöf eru lykilatriði við framkvæmd þeirrar samfélagsábyrgðar sem Stefnir vill standa fyrir. Með því að taka tillit til umhverfismála, félagslegra þátta og góðra stjórnarhátta hefur Stefnir jákvæð áhrif á samfélag sitt, eigendum í sjóðum og öðrum haghöfum til góðs.

Stjórn Stefnis hefur sett félaginu stefnu um ábyrgar fjárfestingar og er stöðugt unnið að innleiðingu hennar í fjárfestingaferla og við samval fjárfestinga. Vöruþróun miðast að miklu leyti að því að bjóða ábyrga fjárfestingarkosti í takt við óskir viðskiptavina okkar. Allir starfsmenn og stjórn Stefnis hafa lokið námi á vegum PRI Academy sem er helsti fræðsluvettvangur í málefnum ábyrgra fjárfestinga á heimsvísu.

Stjórn Stefnis hefur tileinkað sér góða stjórnarhætti og einsett sér að stuðla að og styðja við ábyrga hegðun og fyrirtækjamenningu innan Stefnis, til hagsbóta fyrir alla hagaðila félagsins. Stefnir var fyrst íslenskra félaga til að hljóta nafnbótina fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum 2012 og hefur við viðhaldið þeirri vinnu allar götur síðan.

Valitor

Valitor hf. var stofnað árið 1983 og er greiðslulausnafyrirtæki sem veitir fjölbreytta þjónustu á sviði færsluhirðingar, greiðslugátta og kortaútgáfu. Höfuðstöðvar félagsins eru á Íslandi en einnig er starfsstöð í Bretlandi. Á árinu 2021 komust alþjóðlega fjártæknifélagið Rapyd og Arion banki að samkomulagi um kaup Rapyd á Valitor hf. Kaupin voru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Gert var ráð fyrir því að niðurstaða skoðunar Samkeppniseftirlitsins lægi fyrir fyrir lok árs 2021, en svo varð ekki. Rapyd og Arion banki framlengdu því samkomulag sitt fram til 1. maí 2022.

Eignaumsýslufélög

Landey

Landey er fasteignaþróunarfélag í eigu SRL slhf. sem er sjóður í rekstri Stefnis hf.

Landey hefur frá stofnun árið 2009 komið að eignarhaldi á ýmsum fasteignum og þróunarverkefnum. Núverandi eignir félagsins eru lóðir og fasteignir á Blikastaðalandi, við Þrastarhöfða í Mosfellsbæ og 51% eignarhlutur í Arnarneshálsi í Garðabæ.

Markmið félagsins er að auka verðmæti eigna sinna með áframhaldandi þróun og uppbyggingu þessara svæða.

Sólbjarg

Sólbjarg ehf. er eignarhaldsfélag yfir fyrrverandi ferðaþjónustusamstæðu TravelCo hf. en dótturfélög þess voru Terra Nova Sól ehf., Heimsferðir ehf. og TravelCo Nordic/Bravo Tours.

Sólbjarg lauk sölu á Terra Nova Sól ehf. á fyrsta ársfjórðungi 2020.

Kaupsamningur var undirritaður við Ferðaskrifstofu Íslands ehf. í desember 2020 sem fól í sér sölu á öllum rekstri Heimsferða ehf. og vörumerki þess. Endanleg sala er háð samþykki Samkeppnisyfirvalda. Sólbjarg mun verða minnihlutaeigandi í Ferðaskrifstofu Íslands ef salan gengur eftir.

Sólbjarg ehf. seldi 59,4% eignarhlut sinn í dönsku ferðaskrifstofunni Bravo Tours 1998 A/S á fjórða ársfjórðungi 2021.

Stakksberg

Stakksberg ehf. er félag í eigu Arion banka sem snemma á árinu 2018 tók yfir kísilverksmiðjuna í Helguvík af þrotabúi Sameinaðs silíkons. Umhverfisstofnun hafði áður stöðvað rekstur kísilverksmiðjunnar í septembermánuði 2017 vegna annmarka á rekstri sem fólu í sér frávik frá starfsleyfi.

Stakksberg hefur fengið öll nauðsynleg leyfi til rekstrarins yfirfærð til sín, sem og raforkusamning, og jafnframt unnið úrbótaáætlun fyrir verksmiðjuna sem hefur hlotið samþykki Umhverfisstofnunar. Stakksberg hefur einnig gert nýtt umhverfismat fyrir starfsemi verksmiðjunnar. Hið nýja umhverfismat tekur til framkvæmda við úrbætur og breytingar á verksmiðjunni til að uppfylla kröfur Umhverfisstofnunar í samræmi við framangreinda úrbótaáætlun.

Frá því Arion banki tók yfir kísilverksmiðjuna í Helguvík hefur bankinn kannað ýmsa möguleika varðandi framtíð hennar. Bankinn hefur haft það markmið að annað hvort finna hæfa aðila með viðurkennda reynslu af starfsemi kísilvera til að taka við starfseminni eða finna aðrar lausn sem fæli þá ekki í sér að starfsemi hæfist á ný í kísilverinu.

Arion banki og PCC, eigandi kísilverksmiðjunnar á Bakka við Húsavík, undirrituðu í upphafi árs 2022 viljayfirlýsingu varðandi möguleg kaup PCC á verksmiðjunni í Helguvík. Viljayfirlýsingin gildir til 1. júlí 2022 og mun PCC á gildistíma yfirlýsingarinnar framkvæma margvíslegar áreiðanleikakannanir. Fyrir liggur að nokkur andstaða er í Reykjanesbæ við það að verksmiðjan verði endurræst og er sú andstaða eitt af því sem horft verður til í þeim áreiðanleikakönnunum sem fram undan eru.