Helstu atburðir

Þrátt fyrir áframhaldandi áskoranir í tengslum við heimsfaraldur COVID-19 náðist góður árangur á árinu 2021 hvað varðar þjónustu og rekstur bankans. Samstarf Arion banka og viðskiptavina bankans leiddi af sér fjölbreytt verkefni á árinu.

Góð ávöxtun

Arion banki ásamt Stefni, dótturfélagi bankans, er leiðandi í eignastýringu á Íslandi með um 1.352 milljarða króna af eignum í stýringu. Ávöxtun ársins var góð og eignir í stýringu jukust um rúma 200 milljarða. Áhugi almennings á hlutabréfum jókst töluvert á árinu en velta í viðskiptum með hlutabréf á Nasdaq á Íslandi jókst um 77% á milli ára. Innlendir hlutabréfasjóðir skiluðu framúrskarandi ávöxtun, bæði fyrir almenning og fagfjárfesta.

Eignir í stýringu hjá einkabankaþjónustu Arion banka jukust um 30%. Þjónustan felur í sér víðtæka fjármálaþjónustu fyrir efnameiri einstaklinga, fyrirtæki, sjóði og stofnanir. Hjá eignastýringu fagfjárfesta jukust eignir í stýringu um 19%. Nafnávöxtun lífeyrissjóða í stýringu hjá Arion banka var góð eða á bilinu 4,8- 21,0%. Alls jukust eignir í stýringu um 19,5% á árinu.

Á árinu var Arion banki með mestu hlutheild markaðsaðila þegar kemur að hlutabréfaviðskiptum á aðalmarkaði kauphallarinnar, sjötta árið í röð, ásamt því að vera með mestu hlutdeildina á First North vaxtarmarkaðinum og næstmestu hlutdeildina á skuldabréfamarkaði Nasdaq Iceland.

Fjölbreytt fjármögnunarverkefni með spennandi fyrirtækjum

Mikil umsvif voru á sviði fyrirtækjaráðgjafar. Arion banki, ásamt DNB og Pareto, var ráðgjafi í hlutafjárútboði Arctic Fish að fjárhæð 600 milljónir norskra króna, sem samsvarar um 9 milljörðum íslenskra króna. Viðskiptin voru undirbúningur félagsins að skráningu á Euronext Growth hlutabréfamarkaðinn. Arion banki hafði umsjón með útboði Iceland Seafood International. Útboðið, sem nam 3,4 milljörðum íslenskra króna, var fyrsta óveðtryggða útgáfa rekstrarfélags á markaði í vel á annan áratug. Arion banki, ásamt fjárfestingarbankanum Morgan Stanley, var umsjónaraðili í umsvifamiklum skuldabréfaviðskiptum Alvotech. Viðskiptin gengu út á breytingu á breytilegum skuldabréfum Alvotech í hlutafé sem verðmat félagið á um 300 milljarða íslenskra króna.

Frumútboð Fly Play hf. fór fram í júní og var Arion banki, ásamt Arctica Finance, söluaðili útboðsins. Áttföld eftirspurn var í hlutafjárútboðinu og nam útboðið um 4,3 milljörðum króna. Arion banki var einnig umsjónar- og söluaðili hlutafjárútboðs tölvuleikjafélagsins Solid Cloud. Um fjórföld umframeftirspurn var eftir hlutafé félagsins og braut útboðið blað í fjármögnun vaxtarfyrirtækja á Íslandi.

Íbúðalán og bílalán

Ný íbúðalán námu á árinu um 211 milljörðum króna sem er það mesta sem bankinn hefur lánað á einu ári og stækkaði íbúðalánasafnið um 85 milljarða króna. Á árinu kynnti bankinn nýja lausn, sumarleyfi íbúðalána, sem felur í sér að viðskiptavinir geta sleppt einni afborgun á sumarmánuðum og bætist sú upphæð við höfuðstól lánsins.

Einnig var met slegið hjá bílafjármögnun bankans en á árinu jukust ný útlán um 43% og námu útlán ársins samtals 8,9 milljörðum króna. Á árinu bauð bankinn velkomna rúmlega 900 nýja viðskiptavini með samkeppnishæfum kjörum og sveigjanlegri þjónustu.

Græn fjármálaumgjörð

Í júlí gaf Arion banki út heildstæða græna fjármálaumgjörð sem tekur til fjármögnunar bankans og lánveitinga. Í umgjörðinni er með skýrum og gegnsæjum hætti gerð grein fyrir þeim skilyrðum sem lánveitingar bankans þurfa að uppfylla til að teljast umhverfisvænar. Umgjörðin gerir bankanum kleift að lána til grænna verkefna.

Arion banki veitti Norðuráli um 16 milljarða króna grænt lán sem félagið mun nýta til að fjármagna nýja framleiðslulínu sem mun leiða til um 40% orkusparnaðar ef miðað er við sambærilega framleiðslu erlendis.

Samstarf Varðar og Arion banka

Farsælt samstarf Arion banka og Varðar, dótturfélags bankans, óx og dafnaði á árinu. Starfsemi Varðar var flutt í höfuðstöðvar Arion banka og geta nú viðskiptavinir sótt alla helstu banka- og tryggingaráðgjöf í Borgartúni 19 og öllum helstu útibúum Arion banka. Tækifærin sem felast í samstarfinu eru margvísleg og með tilkomu þess getur bankinn boðið einstakt vöruframboð.

Besta bankaappið á Íslandi – viðskipti með sjóði og hlutabréf í appið

Arion appið varð enn betra á árinu. Nú geta notendur appsins átt í viðskiptum með sjóði Stefnis og skráð hlutabréf ásamt því að fá frábæra heildarsýn og upplýsingar um stöðu fjárfestinga. Í appinu geta viðskiptavinir átt viðskipti með bæði hlutabréf á aðalmarkaði kauphallarinnar og First North vaxtarmarkaðinum. Þetta er fimmta árið í röð sem könnun MMR sýnir að viðskiptavinir bankanna telja Arion banka appið besta bankaappið á Íslandi.

Bankinn til þín

Á árinu hóf Arion banki að bjóða upp á fjarfundi með ráðgjafa í gegnum fjarfundarbúnað Teams. Þjónustan ber heitið Bankinn til þín og hefur henni verið vel tekið af viðskiptavinum. Margvísleg ráðgjafarþjónusta er veitt í gegnum fjarfundi, þar á meðal íbúðalána-, sparnaðar- og lífeyrisráðgjöf.

Á undanförnum árum hefur eftirspurn eftir bankaþjónustu breyst hratt og sækja viðskiptavinir í auknum mæli í stafræna þjónustu. Arion banki hefur þróað þjónustu sína í takt við breytta eftirspurn, þar með talið útibúanet sitt. Breytingar urðu á útibúaneti bankans á árinu en í maí sameinaðist útibúið á Blönduósi útibúinu á Sauðárkróki og í júní var þjónustu bankans í Kringlunni breytt í sjálfsafgreiðslu. Í höfuðstöðvum bankans geta nú bæði fyrirtæki og einstaklingar sótt fjölbreyta fjármála- og tryggingaþjónustu.

Innleiðing nýs innlána- og greiðslukerfis

Innleiðingu SOPRA, nýs innlána- og greiðslukerfis bankans, lauk farsællega í apríl 2021. Um er að ræða eitt allra stærsta upplýsingatækniverkefni sem bankinn hefur ráðist í á síðari árum. SOPRA kerfið leysti af hólmi eldri kerfi og mun leiða til aukinnar hagræðingar og skapa ný tækifæri til vöruþróunar.

Skipulagsbreytingar – upplifun viðskiptavina í öndvegi

Á árinu var stofnað nýtt svið innan bankans, upplifun viðskiptavina. Markmið breytinganna er að bæta enn frekar upplifun viðskiptavina í gegnum allar þjónustuleiðir bankans. Þetta eru mikilvæg skref sem styrkja okkur á þeirri vegferð sem fram undan er varðandi eflingu þjónustunnar og upplifun viðskiptavina.

Á árinu var jafnframt öll fyrirtækjaþjónusta bankans á höfuðborgarsvæðinu sameinuð með það að markmiði að samræma og styrkja þjónustuna og auka hlutdeild bankans hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum.

Efnahagur

Arion banki réðst í sína fyrstu grænu skuldabréfaútgáfu og fellur útgáfan undir græna fjármálaumgjörð bankans. Um var að ræða skuldabréf til fjögurra ára að upphæð 300 milljónir evra eða sem nemur rúmum 44 milljörðum íslenskra króna. Bankinn gaf að auki út sín fyrstu grænu skuldabréf í íslenskum krónum að fjárhæð 3,6 milljarðar króna. Bankinn gaf einnig út sértryggð skuldabréf til fimm ára að upphæð 300 milljónir evra. Útgáfan var fyrsta sértryggða skuldabréfaútgáfa íslensks banka í evrum.

Mikilvægir áfangar náðust á árinu varðandi hagstæðari fjármagnsskipan Arion banka og mun sú vegferð halda áfram. Endurkaup og arðgreiðslur námu á árinu 31,5 milljörðum króna.

Innlán bankans jukust alls um 13,8% á árinu. Græn innlán jukust um 61%.

Á árinu samdi Arion banki um kaup Rapyd á Valitor, dótturfélagi bankans, og kaup Ferðaskrifstofu Íslands á Heimsferðum. Samningarnir eru báðir háðir samþykki Samkeppniseftirlitsins. Að auki seldi Arion banki hlut sinn í dönsku ferðaskrifstofunni Bravo Tours 1998.

Viðurkenningar

Arion banki var valinn banki ársins á Íslandi 2021 af The Banker, fjármálatímarit sem er gefið út af The Financial Times. Í rökstuðningi tímaritsins kom fram að árangur Arion Banka á árinu og áhersla á umhverfis- og félagsþætti og stjórnarhætti (UFS) hefði orðið til þess að bankinn varð fyrir valinu.

Arion banki og Vörður fengu á árinu viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar, hreyfiaflsverkefnis FKA. Þetta er í annað árið í röð sem Arion banki hlýtur viðurkenninguna en bankinn hefur um árabil lagt ríka áherslu á jafnrétti í starfsemi sinni.

Arion banki, Vörður og Stefnir hlutu nafnbótina Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum. Að viðurkenningunni standa Stjórnvísi, Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og Nasdaq Iceland.

Í desember tilkynnti Viðskiptablaðið/Frjáls verslun að Arion banki og Benedikt Gíslason bankastjóri væru handhafar viðskiptaverðlauna 2021. Einnig valdi Markaðurinn Benedikt Gíslason viðskiptamann ársins.

Fréttir ársins 2021