Græn fjármál

Arion banki hefur sett sér umhverfis- og loftslagsstefnu og hefur á síðustu árum boðið viðskiptavinum sínum græna fjármálaþjónustu, svo sem græn bílalán, innlán og íbúðalán. Arion banki gaf á árinu út heildstæða græna fjármálaumgjörð sem nær til fjármögnunar bankans og lánveitinga. Bankinn hefur því skuldbundið sig til að nýta það fjármagn sem hann sækir á lánsfjármörkuðum í tengslum við grænu umgjörðina í græn lán til fyrirtækja og einstaklinga eins og þau eru skilgreind í umgjörðinni. Til að sýna fram á nýtingu þessara fjármuna í græn verkefni hefur bankinn sett fram sérstaka áhrifa- og úthlutunarskýrslu.

Græn fjármögnun Arion banka og grænar lánveitingar

Bankar gegna lykilhlutverki í að fjármagna framfarir og við hjá Arion banka beinum sjónum okkar að fjármögnun verkefna sem snúa að sjálfbærri þróun og grænni innviðauppbyggingu. Um mitt árið gaf bankinn út heildstæða græna fjármálaumgjörð og fór í kjölfarið í sína fyrstu grænu skuldabréfaútgáfu, að fjárhæð 300 milljónir evra eða sem nemur rúmum 44 milljörðum íslenskra króna. Umframeftirspurn var eftir bréfunum og voru kjörin á útgáfunni betri en bankinn hafði fengið á undanförnum árum. Í desember var svo farið í fyrstu íslensku grænu skuldabréfaútgáfu bankans sem var talsvert minni, eða 3.640 milljónir króna.

Hlutfall grænna lánveitinga er nú um 11% af heildarlánsafni bankans og er það markmið bankans að koma því hlutfalli í að minnsta kosti 20% árið 2030. Með þessu markmiði hefur bankinn í hyggju að auka grænar lánveitinga á þann hátt að árlegur vöxtur grænnar lánabókar sé að jafnaði helmingi meiri en vöxtur lánabókar bankans í heild sinni. Markmið varðandi hlutfall grænna lánveitinga verður endurskoðað árlega með tilliti til þeirra tækifæra sem gefast á næstu árum til grænnar fjármögnunar og innleiðingar á flokkunarreglugerð Evrópusambandsins hér á landi. Er það von bankans að vöxturinn geti orðið enn hraðari.

Á árinu 2022 munum við áfram leggja áherslu á sjálfbærni með okkar viðskiptavinum og munum setja okkur stefnu hvað varðar þær atvinnugreinar sem hafa mest áhrif í okkar lánveitingum með tilliti til loftslags- og umhverfissjónarmiða. Þá munum við hefja vinnu við að meta kolefnisspor lánasafnsins samkvæmt aðferðafræði Partnership for Carbon Accounting Financials (PCAF). Þegar við höfum náð góðri mynd af kolefnisspori lánasafnsins ætlum við að setja okkur markmið um að draga úr því til ársins 2030 í samræmi við markmið Parísarsamkomulagsins.

Til að öðlast betri yfirsýn yfir áhættu tengda loftslagsbreytingum hefur bankinn í annað sinn nýtt sér tilmæli Task Force on Climate-related Financial Disclosures (TCFD). Umfjöllun um sjálfbærniáhættu í áhættuskýrslu bankans fyrir árið 2021 byggir meðal annars á þessum viðmiðum og þar er að finna greiningu á lánasafni bankans út frá loftslagsáhættu. Bankinn gerðist formlega aðili að TCFD í febrúar 2022. 

 

Græn fjármálaumgjörð

Græn fjármálaumgjörð Arion banka er mikilvægur áfangi á þeirri grænu vegferð sem bankinn er á með sínum viðskiptavinum, bæði einstaklingum og fyrirtækjum. Umgjörðin hefur þegar nýst við fjármögnun bankans með útgáfu grænna skuldabréfa og öflun grænna innlána en ekki síður til að efla umhverfisvænt vöruframboð bankans. Á árinu bættust græn fyrirtækjalán við grænt vöruframboð bankans en verkefni sem falla undir slíkar lánveitingar geta meðal annars snúið að orkusparnaði, orkuskiptum í samgöngum, vottuðum fasteignum, sjálfbærum sjávarútvegi, mengunarvörnum og framleiðslu á endurnýjanlegri orku.

Til að verkefni geti fengið græna lánveitingu þarf það að mæta þeim kröfum sem gerðar eru í grænu fjármálaumgjörðinni. Þau fyrirtæki sem uppfylla skilyrði grænna lánveitinga eru skoðuð sérstaklega og bera að jafnaði lægri fjármögnunarkostnað. Til þeirra eru gerðar ríkari kröfur um frammistöðu hvað varðar ófjárhagslega þætti starfseminnar ásamt ríkari upplýsingaskyldu um ófjárhagslega mælikvarða.

Í tengslum við grænu fjármálaumgjörðina fékk Arion banki verkfræðistofuna Mannvit til liðs við sig til að greina íbúðalánasafn bankans og setja fram nálgun á það hvað geti flokkast sem grænt íbúðarhúsnæði hér á landi. Um er að ræða fyrstu skýrslu þessarar tegundar hérlendis og er hún mikilvægt innlegg í umræðuna um grænar byggingar og þróun þeirra á innlendum fasteignamarkaði. Um 13% af því íbúðarhúsnæði sem Arion banki hefur lánað til falla undir skilgreiningu Arion banka og Mannvits á grænu íbúðarhúsnæði, auk umhverfisvottaðs íbúðarhúsnæðis.

Græn fjármálaumgjörð Arion banka fékk álit norska matsfyrirtækisins Cicero sem gaf umgjörðinni einkunnina ,,Medium Green“ og stjórnarháttum í tengslum við hana einkunnina ,,Good“. Deutsche Bank veitti ráðgjöf um mótun umgjarðarinnar. Fjármálaumgjörðin byggir á viðmiðum Alþjóðasamtaka aðila á verðbréfamarkaði, ICMA, um græna skuldabréfaútgáfu. Einnig er horft til flokkunarkerfis Evrópusambandsins, EU Taxonomy, og heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Græn fjármálaumgjörð Arion banka
Skýrsla Mannvits um græn íbúðalán
Álit Cicero

Græn innlán tengd við græna fjármálaumgjörð Arion banka

Um mitt ár 2020 kynnti Arion banki til leiks, fyrstur íslenskra banka, grænan innlánsreikning sem ber nafnið Grænn vöxtur. Samhliða Grænum vexti kynnti bankinn sérstaka fjármálaumgjörð um græn innlán en fjármunum sem safnast inn á Grænan vöxt er einvörðungu ráðstafað til verkefna sem ætlað er að hafi jákvæð umhverfisáhrif. Um er að ræða sparnaðarreikning sem er hugsaður fyrir einstaklinga, félagasamtök og fyrirtæki sem vilja leggja sitt af mörkum til umhverfisvænni framtíðar. Reikningurinn er óverðtryggður og óbundinn og því laus til úttektar hvenær sem er.

Viðtökur Græns vaxtar hafa farið fram úr björtustu vonum og í lok árs 2021 höfðu safnast rúmlega átta milljarðar á reikninginn. Fyrst um sinn voru innistæður Græns vaxtar eingöngu notaðar til að fjármagna græn bílalán sem styðja við orkuskipti í samgöngum. Vegna vinsælda Græns vaxtar útvíkkaði bankinn umgjörð reikningsins í byrjun árs 2021 og bætti við verkefnum sem snúa að mengunarvörnum og betri stýringu úrgangs. Græn bílalán njóta stöðugt meiri vinsælda og jókst hlutfall grænna bílalána í bílalánasafni Arion banka, þ.e. lána til kaupa á rafmagnsbílum og bílum sem nota að hluta til endurnýjanlega orkugjafa, úr 17% í 30% á árinu.

Í loks árs var Grænn vöxtur tengdur við heildstæða græna fjármálaumgjörð Arion banka og sérstök umgjörð um græn innlán felld niður.

Stofna reikning fyrir Grænan vöxt

Áhrifa- og úthlutunarskýrsla Arion banka 2021

Arion banki hefur gefið út áhrifa- og úthlutunarskýrslu fyrir græna fjármálaumgjörð bankans fyrir árið 2021. Sjálfbærniteymi EY á Íslandi veitti ráðgjöf við gerð skýrslunnar og sá jafnframt um útreikninga á umhverfis- og loftslagsáhrifum grænna verkefna. Í skýrslunni má sjá úthlutun fjármuna sem aflað hefur verið með grænum skuldabréfaútgáfum og grænum innlánum árið 2021 ásamt umfjöllun um jákvæð umhverfis- og loftslagsáhrif grænna verkefna Arion banka. Deloitte hefur enn fremur veitt staðfestingu með takmarkaðri vissu á úthlutun fjármuna til grænna verkefna sem aflað hefur verið með grænum skuldabréfaútgáfum og grænum innlánum.

Áhrifa- og úthlutunarskýrsla Arion banka 2021 

Heildarúthlutun
grænnar fjármögnunar


129,9

 milljarðar

Forðun á losun gróðurhúsalofttegunda 


12.680

tCO2í

Áætluð losun GHL sem komið var í veg fyrir á árinu 2021 vegna grænnar fjármögnunar

Forðun á losun gróðurhúsalofttegunda
með grænni fjármögnun samsvarar

36.228

flugmiðum fram og til baka frá Kaupmannahöfn

Ábyrg sjóðastýring

Hlutverk Stefnis, dótturfélags Arion banka, er að stýra fjármunum í eigu viðskiptavina með hagsmuni þeirra að leiðarljósi til skemmri og lengri tíma. Félagið hefur verið í fararbroddi í þróun nýrra sjóða og fjárfestingarkosta síðastliðinn áratug og er leiðandi þegar kemur að innleiðingu góðra stjórnarhátta og UFS stefnu.

Ábyrgir og fjölbreyttir fjárfestingakostir og ítarleg upplýsingagjöf eru lykilatriði í framkvæmd og sýnileika þeirrar samfélagslegu ábyrgðar sem Stefnir vill sýna. Með því að taka tillit til umhverfismála, félagslegra þátta og góðra stjórnarhátta telur félagið sig geta haft jákvæð áhrif á samfélagið, eigendum í sjóðum og öðrum haghöfum til góðs.

Rík áhersla er á fagleg og öguð vinnubrögð innan félagsins. Nánari upplýsingar um ábyrgar fjárfestingar hjá Stefni er að finna hér.

Stefnir - Scandinavian fund - ESG hs.

Erlendur hlutabréfasjóður þar sem ákveðin heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru sérstaklega höfð að leiðarljósi við fjárfestingar hjá sjóðnum.

Markmiðin eru: Heilsa og vellíðan, Sjálfbær orka, Ábyrg neysla, Jafnrétti kynjanna, Nýsköpun og uppbygging og Aðgerðir í loftslagsmálum.

Nánar um sjóðinn

Stefnir - Grænaval hs.

Blandaður sjóður sem fjárfestir einkum í innlendum og erlendum sjóðum, hlutabréfum og skuldabréfum með það að markmiði að skila sjálfbærri ávöxtun til langs tíma.

Fyrir hvern þann sem fjárfestir í sjóðnum árið 2021 verða gróðursett 10 tré í samstarfi við Kolvið.

Nánar um sjóðinn

Stefnir - Sjálfbær skuldabréf hs.

Skuldabréfasjóður sem leitast eftir ávöxtun í safni skuldabréfa, innlendra sem erlendra, með sjálfbærni að markmiði.




Nánar um sjóðinn

Markmið Arion banka í umhverfis- og loftslagsmálum

Við höfum sett okkur metnaðarfulla umhverfis- og loftslagsstefnu með markmiðum til næstu ára. Markmiðin snúa bæði að rekstri bankans og áhrifum út á við í tengslum við lánveitingar og fjárfestingar. Nánari upplýsingar um stefnuna og markmiðin má finna hér.

Markmið um hlutfall grænna útlána til einstaklinga og fyrirtækja árið 2030

20%

Endurskoðað árlega með tilliti til tækifæra til grænnar fjármögnunar

Á árinu 2022 verður lánasafn bankans metið út frá aðferðafræði PCAF

Markmið um að draga úr losun lánasafnsins til samræmis við Parísarsamkomulagið  

Á árinu 2022 setjum við stefnu varðandi lánveitingar til atvinnugreina

sem hafa mest áhrif með tilliti til loftslags- og umhverfissjónarmiða