Efnahagsumhverfið

Eftir einn mesta efnahagssamdrátt Íslandsögunnar er íslenskt hagkerfi á batavegi. Efnahagsbatinn á árinu 2021 reyndist kraftmeiri en væntingar stóðu til í upphafi árs. Um mitt ár bar bólusetningarátak stjórnvalda ávöxt og var öllum sóttvarnartakmörkunum tímabundið aflétt innanlands, landamærareglur útvíkkaðar og ferðamenn tóku að streyma til landsins á nýjan leik. Eftir að ferðaþjónustan var leyst úr fjötrum, samhliða vinnumarkaðsaðgerðum stjórnvalda, tók atvinnuleysi að lækka skarpt og er nú áþekkt því sem það var fyrir heimsfaraldurinn. Kaupmáttur launa hélt áfram að aukast og eignaverð hækkaði verulega sem skilaði sér í aukinni einkaneyslu, betri niðurstöðu í ríkisrekstri en á horfðist og almennt auknum efnahagsumsvifum. Þótt krónan hafi siglt tiltölulega lygnan sjó og endað árið sterkari en hún hóf það, hélt verðbólgan áfram að stíga og hefur ekki verið meiri í tæpan áratug. Til að sporna gegn verðbólgu greip Seðlabankinn til ýmissa aðgerða og hóf t.a.m. að hækka vexti um mitt ár. Jafnvel þótt íslenskt hagkerfi sé óðum að ná vopnum sínum er óvissan enn mikil, COVID-19 heimsfaraldurinn hefur hvergi nærri sleppt tökum sínum á heimsbúskapnum, verðbólga um heim allan er langt yfir markmiðum eftir sögulega slaka peningastefnu og framleiðslukeðjur eru í lamasessi.

Hagkerfið sneri vörn í sókn

Árið 2021 byrjaði brösuglega í íslensku efnahagslífi. Bólusetning gegn COVID-19 fór hægt af stað á sama tíma og breska afbrigði veirunnar skæðu náði fótfestu. Undir lok fyrsta ársfjórðungs greip ríkisstjórnin til hörðustu sóttvarnaraðgerða frá upphafi faraldursins og hagkerfið hélt áfram að dragast saman. Almennt atvinnuleysi náði áður óþekktum hæðum, ferðaþjónustan lá áfram í dvala og útlit var fyrir hægan efnahagsbata. Með hækkandi sólu komst skriður á bólusetningarátak stjórnvalda, veiran dró sig í hlé og landsmenn jafnt sem ferðamenn nutu sumarsins og frelsisins sem því fylgdi. Þjóðarskútan sigldi seglum þöndum á seinni hluta ársins, þrátt fyrir bakslag í þróun faraldursins, og slakinn í þjóðarbúinu minnkaði hratt. Útlit er fyrir að hagvöxtur ársins hafi verið í kringum 4%, sem er mun betri niðurstaða en spáð var í upphafi árs.

Innlend eftirspurn var dráttarklár hagvaxtar, fyrst og fremst einkaneysla og atvinnuvegafjárfesting, en hið opinbera lagði einnig hönd á plóg í gegnum samneyslu og fjárfestingu. Þrátt fyrir blómlegan vöruútflutning og tæplega sexföldun á fjölda ferðamanna milli ára á seinni hluta ársins var útflutningur ofurliði borinn af innflutningi. Þróttmikil innlend eftirspurn endurspeglaðist í miklum innflutningsvexti og svo fór að framlag utanríkisverslunar til hagvaxtar var neikvætt. Þótt mikil óvissa ríki um efnahagsþróun yfirstandandi árs hefur það sýnt sig að undirstöður hagkerfisins eru sterkar og getan til að takast á við áföll mikil.

Hagvöxtur
%
Heimildir: Hagstofa Íslands, Arion banki. *Fyrstu níu mánuðir ársins.
Hagvöxtur
Framlag undirliða
Heimildir: Hagstofa Íslands, Arion banki. *Fyrstu níu mánuðir ársins.

Ferðaþjónustan rétti úr kútnum

Fyrri hluti ársins reyndist ferðaþjónustunni þungur og seigluðust fyrirtæki við að þreyja þorrann. Aukinnar bjartsýni gætti er leið á vorið og landamæri Íslands voru opnuð fyrir bólusettum ferðamönnum. Tilslakanirnar hlutu góðar undirtektir, sérstaklega meðal bólusettra Bandaríkjamanna er tóku að streyma til landsins, m.a. til að berja eldgosið í Fagradalsfjalli augum. Ferðamannasumrinu var borgið en björninn var ekki unninn þar sem faraldurinn tók sig upp að nýju er líða tók að jólum. Svo fór að tæplega 700 þúsund ferðamenn sóttu landið heim á árinu, sem þrátt fyrir að vera 45% aukning milli ára nemur aðeins þriðjungi af fjöldanum árið 2019. Þó er huggun harmi gegn að fyrstu tölur benda til þess að dvalartími og meðalútgjöld ferðamanna hafi aukist – að verðmætari ferðamenn sæki landið heim.

Þó að ferðaþjónustan sé burðarás í áætluðum útflutningsvexti komandi ára á greinin langan veg fyrir höndum að fyrra vægi í útflutningstekjum þjóðarbúsins, sem hæst fór í tæplega 42% árið 2017. Í ljósi þess að margt hefur á undanförnum árum dafnað í skugga ferðaþjónustunnar, s.s. hugverkaiðnaður, fiskeldi og framleiðsla á lyfjum og lækningatækjum, er ólíklegt að greinin nái viðlíka yfirburðum og áður. Uppgangur annars útflutnings er þróun sem farið hefur hljótt þrátt fyrir mikilvægi hennar fyrir íslenskt hagkerfi – að skapa gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins breiðari grundvöll.

Fjöldi ferðamanna og vöxtur ferðaþjónustunnar
Fjöldi (þús.) og vægi í útflutningi
Heimildir: Ferðamálastofa, Hagstofa Íslands, Arion banki. * Útflutningur á fyrstu níu mánuðum ársins.

Bati á vinnumarkaði fram úr björtustu vonum

Segja má að árið hafi verið tíðindalítið á kjarasamningshlið vinnumarkaðar, samanborið við róstusöm ár á undan, og lítið um vopnaskak þó að einstaka mál hafi ratað inn á borð ríkissáttasemjara. Ólíkt fyrra ári gerðu stríðandi fylkingar ekki atlögu að lífskjarasamningnum, þrátt fyrir að sammælast um brostnar forsendur sökum vanefnda af hálfu ríkissjóðs. Mun samningurinn því halda gildi sínu út samningstímann, það er fram til 1. nóvember 2022.

Atvinnuleysið minnkaði hratt á árinu og mun hraðar en spár gerðu ráð fyrir. Í upphafi árs stóð almennt atvinnuleysi, þ.e.a.s. atvinnuleysi án hlutabótaleiðarinnar, í sínu hæsta gildi frá upphafi, í 11,6%, og þótti útlitið dökkt. Eftir að bólusetning þjóðarinnar var komin vel á rekspöl tók vinnumarkaðurinn stakkaskiptum og atvinnuleysi helmingaðist á örfáum mánuðum. Á fjórða ársfjórðungi hafði störfum í hagkerfinu fjölgað um rúmlega tuttugu þúsund, fjölgun sem náði þvert yfir vinnumarkaðinn. Í júní var hlutabótaleiðin lögð niður og atvinnuátak ríkisstjórnarinnar, Hefjum störf, fékk aukið vægi. Samkvæmt mati Seðlabankans hefði atvinnuleysi verið 2,5 prósentum meira á síðari hluta ársins ef ráðningarstyrkja hefði ekki notið við.

Heildaratvinnuleysi
%
Heimild: Vinnumálastofnun

Á sama tíma og atvinnuhorfur stórbötnuðu jókst kaupmáttur launa um 3,7% milli ára. Samspil þessara þátta ásamt aukinni bjartsýni og hraðri eignamyndun á íbúðamarkaði lagði grunninn að kröftugri einkaneyslu, sérstaklega á síðari hluta ársins. Þá virðist sem áhrif heimsfaraldursins á neysluvilja heimila á Íslandi og víðar hafi verið minni en spár gerðu ráð fyrir. Þannig jókst heildarkortavelta Íslendinga um 18% milli ára á fjórða ársfjórðungi, þrátt fyrir að samkomutakmarkanir hafi verið til staðar. Kortavelta landsmanna erlendis tók enn betur við sér og svipaði henni til ársins 2017 síðustu mánuði ársins.

Einkaneysla og vísitala kaupmáttar launa
Breyting milli ára
Heimildir: Hagstofa Íslands, Arion banki. *Fyrstu níu mánuðir ársins.

Innflutningur kaffærði viðskiptaafganginn

Hagvöxtur ársins 2021 var drifinn áfram af fjárfestingum og einkaneyslu. Fylgifiskur hans var kraftmikill vöruinnflutningur, sem jókst mun meira en vöruútflutningur – sem þó jókst verulega. Sömu sögu var að segja af inn- og útflutningi á þjónustu, þ.e. ferðalögum. Eftir að hafa setið heima við og ferðast innanlands í rúmt ár tóku Íslendingar frelsinu fegins hendi og flykktust til annarra landa. Þrátt fyrir að ferðaþjónustunni hafi vaxið fiskur um hrygg og vöruútflutningur reynst blómlegur laut útflutningshliðin í lægra haldi fyrir innflutningi, svo framlag utanríkisverslunar til landsframleiðslu var neikvætt.

Undirliðir út- og innflutnings
Breyting milli ára
Heimildir: Hagstofa Íslands, Arion banki. *Fyrstu níu mánuðir ársins.

Viðskiptaafgangurinn varð að játa sig sigraðan árið 2021 í fyrsta sinn í áratug. Þrátt fyrir að ræst hafi úr ferðamannasumrinu og ferðaþjónustan fetað af stað bataveginn var þjónustuafgangurinn ekki svipur hjá sjón miðað við uppgangsár greinarinnar, á sama tíma og vöruskiptahallanum óx ásmegin. Niðurstaðan var því tæplega 50 milljarða króna viðskiptahalli þegar fyrstu níu mánuðir ársins eru teknir saman, sem fyrst og síðast má rekja til hefðbundinnar utanríkisverslunar í ljósi þess að rekstrarframlög og frumþáttatekjur jöfnuðu hvort annað nánast út.

Viðskiptajöfnuður
% af VLF
Heimildir: Seðlabanki Íslands, Hagstofa Íslands. * Fyrstu níu mánuðir ársins

Sterk erlend eignastaða naut góðs af góðri ávöxtun á eignamörkuðum og hélt hreina erlenda staðan áfram að hækka þrátt fyrir viðskiptahalla. Erlendar fjárfestingar lífeyrissjóða, Seðlabankans og annarra innlendra fjárfesta hafa spilað lykilhlutverk í hratt batnandi erlendri stöðu þjóðarbúsins undanfarin ár. Samkvæmt nýjustu tölum nemur hrein erlend staða þjóðarbúsins 1.294 milljörðum króna, sem samsvarar 41% af vergri landsframleiðslu, og hefur hún aldrei verið betri. Með öðrum orðum, þjóðarbúið er nettó lánveitandi til útlanda, ekki lántaki líkt og forðum, staða sem styrkir viðnámsþrótt þjóðarbúsins og dregur úr hættu á greiðslujöfnuðarvanda.

Hrein erlend staða þjóðarbúsins
Án slitabúa bankanna, % af VLF
Heimildir: Seðlabanki Íslands, Hagstofa Íslands

Krónan flaug úr hreiðrinu

Eftir mikið brimrót á gjaldeyrismarkaði árið 2020, þar sem snarpar og miklar gengissveiflur kölluðu á umtalsverð inngrip af hálfu Seðlabankans, sigldi krónan tiltölulega lygnan sjó árið 2021. Eftir nánast samfellda styrkingu á fyrstu mánuðum ársins og vísbendingar um betra jafnvægi á gjaldeyrismarkaði ákvað Seðlabankinn að draga úr stuðningi sínum við krónuna. Í apríl var dregið úr tíðni og umfangi reglubundinnar gjaldeyrissölu og var henni að lokum hætt í maí. Samtals seldi Seðlabankinn 71 milljarð króna með reglubundnum hætti frá 14. september 2020.

Þótt reglubundinni gjaldeyrissölu hafi verið hætt lét Seðlabankinn krónuna þó ekki afskiptalausa, enda yfirlýst stefna bankans að grípa inn í á gjaldeyrismarkaði telji hann tilefni til að draga úr sveiflum. Inngripin voru þó fátíð, aðeins 24, og kom bankinn bæði inn á kaup- og söluhlið markaðarins. Frá maí fram til ársloka seldi Seðlabankinn erlendan gjaldeyri fyrir 7 milljarða króna en keypti gjaldeyri fyrir 24 milljarða króna.

Þegar uppi var staðið styrktist krónan um 6% gagnvart evrunni yfir árið en veiktist um 3% gagnvart Bandaríkjadal og 1% gagnvart breska pundinu. Þótt gengi krónunnar sé veikara en fyrir faraldurinn, bæði á mælikvarða nafn- og raungengis, hafa sveiflurnar verið óverulegar í sögulegu samhengi og gjaldeyrismarkaðurinn bersýnilega notið góðs af ríflegum gjaldeyrisforða Seðlabankans, sem stóð í rúmlega 900 milljörðum króna við árslok. Þá má vera að nýjar reglur um afleiðuviðskipti hafi einnig haft áhrif, en um mitt ár voru öll afleiðuviðskipti heimiluð, í fyrsta sinn frá fjármálahruninu. Voru þar með þau fjármagnshöft sem komið var á í kjölfar fjármálahrunsins að öllu leyti úr sögunni.

EUR/ISK og inngrip Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði
Milljarðar króna
Heimildir: Seðlabanki Íslands, Arion banki

Gengisveiking krónunnar árið 2020 olli töluverðri innfluttri verðbólgu, sem komst í hámæli á fyrsta fjórðungi ársins þegar bróðurpart verðbólgunnar mátti rekja til innfluttra vara. Flestar spár gerðu þó ráð fyrir því að verðbólgukúfurinn yrði skammlífur og að verðbólgan myndi minnka eftir því sem gengisáhrifin myndu fjara út. Raunin varð hins vegar önnur. Þrátt fyrir tiltölulega stöðuga gengisþróun hélt verðbólgan áfram að stíga, drifin áfram af húsnæðisverði, sem um mitt ár tók við keflinu af innfluttum vörum. Þá fór framlag innlends kostnaðarþrýstings og launa einnig vaxandi samhliða miklum hrávöruverðshækkunum. Í árslok stóð verðbólgan í 5,1% og ljóst að verðbólgukúfurinn verður þrálátari og erfiðari viðureignar en upphaflega var ætlað. Verðbólga mældist að meðaltali 4,4% árið 2021 en 3,8% sé húsnæðisliðurinn undanskilinn.

Til viðbótar við vaxandi spennu í þjóðarbúskapnum, hækkandi húsnæðisverð og launahækkanir hefur verðbólga í okkar helstu viðskiptalöndum aukist umtalsvert og dregist hefur á langinn að leysa úr framboðshnökrum og framleiðslutruflunum. Ólíkt því sem áður var er há verðbólga um þessar mundir því alls ekki séríslenskt vandamál heldur alþjóðlegt. Ástæður verðbólgu eru oft flóknar og mismunandi en í auknum mæli er yfirstandandi verðbólgukúfur í heiminum nú útskýrður að hluta með lausri peningastefnu og auknu peningamagni, án þess að framleiðniaukning hafi fylgt. Verðbólga yfir markmiði er eitt mikilvægasta verkefnið í hagstjórn heimsins um þessar mundir.

Seðlabanki Íslands var meðal fyrstu seðlabanka Vesturlanda til að snúa af braut peningalegrar slökunar og hóf að hækka vexti strax um vorið, enda starfar bankinn á 2,5% verðbólgumarkmiði. Þá þótti nauðsynlegt að grípa til aðgerða fyrr en seinna til að tryggja kjölfestu verðbólguvæntinga í verðbólgumarkmiði. Alls hækkaði Seðlabankinn vexti um 1,25 prósentustig á árinu, úr 0,75% í 2%, sem er þó ennþá lágt í sögulegu samhengi. Verðbólguvæntingar á markaði eru þó enn talsvert yfir markmiði og væntingar um frekari vaxtahækkanir innbyggðar í feril ríkisbréfa. 

Meginvextir Seðlabanka Íslands og verðbólga
%
Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands

Húsnæðisverð hækkaði, og hækkaði, og hækkaði

Eitt af markmiðum vaxtalækkana Seðlabankans árið 2020 var að koma í veg fyrir hökt á húsnæðismarkaði. Viðbrögðin við vaxtalækkunum létu ekki á sér standa og urðu í raun svo mikil að fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans sá sig knúna til að lækka hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána, setja reglur um hámark greiðslubyrðarhlutfalls fasteignalána og hækka sveiflujöfnunarauka á fjármálafyrirtæki. Komu þær aðgerðir til viðbótar við vaxtahækkanir peningastefnunefndar bankans. Þrátt fyrir að peningalegt aðhald hafi verið aukið verulega ber húsnæðisverð þess ekki enn merki. Undir lok árs stóð árstakturinn á höfuðborgarsvæðinu í 18,4% og leita þarf aftur til ársins 2017, þegar framboðsskortur plagaði markaðinn, að viðlíka hækkunum.

Vaxtalækkanir voru þó ekki eini áhrifavaldurinn á eftirspurnarhlið húsnæðismarkaðarins þar sem aukinn kaupmáttur, stuðningsaðgerðir stjórnvalda og aukinn sparnaður heimilanna áttu einnig hlut að máli. Þá skipti framboðshliðin ekki síður máli, en verulega dró úr fjölda íbúða til sölu eftir því sem leið á árið. Undir lok árs voru rétt rúmlega 600 fasteignir auglýstar til sölu á höfuðborgarsvæðinu og hafa þær sjaldan eða aldrei verið færri frá upphafi mælinga.

An exception occurred: Incorrect syntax near the keyword 'order'. Incorrect syntax near the keyword 'as'.

Árið sem atvinnuvegafjárfesting tók loksins við sér

Litlar breytingar urðu á heildarútlánum lánakerfisins og var ársvöxturinn nokkuð stöðugur í kringum 5,5%. Vöxtur útlána bankakerfisins var talsvert meiri eða liðlega 10%, hrein ný útlán um þriðjungi meiri fyrstu 11 mánuði ársins 2021 en árið áður. Líkt og árið á undan var staðan hins vegar gerólík eftir því hvort litið er til heimila eða fyrirtækja. Útlán til heimilanna, fyrst og fremst íbúðalán, jukust umtalsvert á meðan áframhaldandi samdráttur var í útlánum til fyrirtækja. Aukning íbúðalána hélt áfram að vera fyrst og fremst í óverðtryggðum lánum. Um mitt ár urðu vatnaskil er meirihluti nýrrar lántöku íbúðalána færðist úr breytilegum vöxtum yfir í fasta vexti samhliða vaxtahækkunum Seðlabankans. Verðtryggð íbúðalán héldu áfram að dragast saman á árinu.

Þrátt fyrir ört vaxandi efnahagsumsvif drógust útlán til nær allra atvinnugreina saman. Aftur á móti vó annars konar fjármögnun, svo sem markaðsfjármögnun og fjármögnun í gegnum sérstaka fagfjárfestasjóði, að einhverju leyti á móti útlánasamdrætti svo fjárfesting leið ekki fyrir.

Eftir samfelldan þriggja ára samdrátt sneri atvinnuvegafjárfesting loks við blaðinu og jókst um 24% milli ára á fyrstu níu mánuðum ársins. Að einhverju leyti skýrist vöxturinn af breyttri meðferð eignaleigusamninga í þjóðhagsreikningum, sem endurspeglast í mikilli flugvélafjárfestingu, en öllu jákvæðari er ríflega 20% vöxtur hefðbundinnar atvinnuvegafjárfestingar. Er þetta með jákvæðari hagtíðindum ársins þar sem hefðbundin atvinnuvegafjárfesting er undirstaða verðmætasköpunar hagkerfisins. Fjárfesting hins opinbera jókst einnig talsvert milli ára, þá fyrst og fremst fjárfestingaútgjöld ríkissjóðs. Íbúðafjárfesting dróst aftur á móti saman, þróun sem var viðbúin í ljósi samdráttar á efri byggingarstigum. Flestir eru sammála um að staðan á íbúðamarkaði er áhyggjuefni. Samkvæmt talningu Samtaka iðnaðarins eru fimm ár síðan jafn fáar íbúðir voru í byggingu og því ljóst að framboðsskorturinn mun ekki leysast í nánustu framtíð.

Útlán lánakerfis*
breyting frá fyrra ári
Heimild: Seðlabanki Íslands. *Leiðrétt fyrir endurflokkun og skuldalækkunaraðgerðum stjórnvalda. Án útlána til innlánsstofnana, fallinna fjármálafyrirtækja og hins opinbera.
Fjárfesting
hlutdeild einstakra liða í breytingu frá fyrra ári
Heimild: Hagstofa Íslands. *Fyrstu níu mánuðir ársins

Betur fór en á horfðist í ríkisrekstri

Fjárlög ársins 2021 voru samþykkt með 326 milljarða króna halla. Þegar líða tók á árið og öflugur efnahagsbati fór að taka á sig mynd var ljóst að ríkisfjármál myndu njóta góðs af, sem og varð raunin. Samkvæmt áætlunum verður afkoma ríkissjóðs árið 2021 um 38 milljörðum króna betri en talið var í upphafi árs. Þá er útlit fyrir verulegan afkomubata milli ára, enda efnahagsbatinn kröftugri en reiknað var með og þar af leiðandi minni þörf fyrir stuðningsaðgerðir ríkissjóðs. Afkoma ríkissjóðs samkvæmt fjárlögum ársins 2022 batnar því um ríflega 100 milljarða króna milli ára. Neikvæð afkoma ríkissjóðs hefur óhjákvæmilega leitt til ört hækkandi skulda en hraður viðsnúningur hagkerfisins, sem og vel heppnuð sala ríkisins á hlut í Íslandsbanka, hafa leitt til mun betri skuldastöðu en óttast var í upphafi.

Í gegnum kórónuveirufaraldurinn hefur lánshæfiseinkunn ríkissjóðs haldist sterk. Af matsfyrirtækjunum þremur var aðeins Fitch sem breytti umsögn sinni úr stöðugum horfum í neikvæðar en lánshæfiseinkunnin stóð óbreytt í A. Ekkert af matsfyrirtækjunum þremur breytti einkunn sinni eða horfum árið 2021. S&P metur lánshæfi ríkissjóðs fyrir langtímaskuldbindingar einnig A á meðan Moody‘s metur lánshæfiseinkunnina A2 fyrir langtímaskuldbindingar. Aðeins Fitch telur horfurnar neikvæðar.

Heildarjöfnuður ríkissjóðs
Milljarðar króna
Heimildir: Hagstofa Íslands, Fjármála- og efnahagsráðuneytið. * Að frátöldum óreglulegum og einskiptis tekju- og útgjaldaliðum.