Markmið og árangur

Arion banki starfar samkvæmt skýrum fjárhagsmarkmiðum sem bankinn birtir opinberlega. Fjárhagsmarkmið bankans voru uppfærð í árslok 2021 og gilda ný markmið til næstu 3 ára. Öllum fjárhagsmarkmiðum ársins 2021 var náð fyrir utan 17% hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1. Arðgreiðslur og endurkaupaáætlun bankans eru liður í því að ná því markmiði.

Markmið ársins 2021

Arion banki birtir helstu fjárhagsmarkmið bankans í kauphöll og árshlutauppgjörum bankans. Hér má sjá fjárhagsmarkmið fyrir árið 2021 og þann árangur sem náðist á árinu.

  Markmið 2021
 Arðsemi eigin fjár >10% 14,7%
 Rekstrartekjur/áhættuvegnar eignir >6,7% 7,6%
 Lánavöxtur Lánavöxtur sé í takt við vöxt í efnahagslífinu á næstu árum.
Áætlað er að íbúðalánavöxtur verði meiri en vöxtur fyrirtækjalána.
13,8%
 Kostnaðarhlutfall <45% 44,4%
 Hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 ~17% 19,6%
 Arðgreiðsluhlutfall* 50% 79,0%

* Arðgreiðslustefna bankans kveður á um arðgreiðsluhlutfall í kringum 50% af hagnaði til hluthafa annaðhvort með arðgreiðslum eða endurkaupum á hlutabréfum bankans eða hvorutveggja. Viðbótarútgreiðslur verða skoðaðar þegar eigið fé bankans er umfram kröfur eftirlitsaðila að viðbættum stjórnendaauka bankans.

Eins og sjá má náði bankinn öllum sínum rekstrarmarkmiðum á árinu 2021. Hins vegar náðist ekki markmið um 17% hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1. Bankinn var í árslok með alls 21 milljarð króna í umfram eigið fé og hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 var 19,6%. Hægar hefur gengið að losa um umfram eigið fé en til stóð, m.a. þar sem hömlur voru settar á arðgreiðslur vegna heimsfaraldurs.

Endurkaup á hlutabréfum bankans og arðgreiðsla námu samtals 31,5 milljörðum króna á árinu 2021. Stjórn mun leggja til við aðalfund bankans sem fram fer 16. mars 2022 að greiddir verði 22,5 milljarðar króna í arð til hluthafa. Jafngildir það 15 krónum á hlut. Jafnframt getur komið til sérstakrar arðgreiðslu samþykki eftirlitsaðilar kaup Rapyd á Valitor, dótturfélagi Arion banka.

Uppfærð markmið til næstu þriggja ára

Stjórn Arion banka samþykkti ný fjárhagsleg markmið bankans í desember 2021 í kjölfar uppfærslu á viðskiptaáætlun bankans. Uppfærð markmið má sjá hér fyrir neðan.

  Uppfærð markmið
 Arðsemi eigin fjár >13%
 Rekstrartekjur/áhættuvegnar eignir >7,3%
 Vöxtur tryggingaiðgjalda Vöxtur eigin iðgjalda verði meira en 3 prósentustigum hærri en vöxtur innlends tryggingamarkaðar.
 Lánavöxtur  Í takt við hagvöxt (nafnvöxt).
 Kostnaðarhlutfall <45%
 Hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 ~17%
 Arðgreiðsluhlutfall* 50%

* Arðgreiðslustefna bankans kveður á um arðgreiðsluhlutfall í kringum 50% af hagnaði til hluthafa annað hvort með arðgreiðslum eða endurkaupum á hlutabréfum bankans eða hvorutveggja. Viðbótarútgreiðslur verða skoðaðar þegar eigið fé bankans er umfram kröfur eftirlitsaðila að viðbættum stjórnendaauka bankans.

Skýr markmiðasetning lykill að árangri

Fyrir utan þessi fjárhagslegu markmið eru fjölþætt markmið sem bankinn og svið hans starfa eftir. Fjölmörg þeirra eru mikilvægur liður í kaupaukakerfi bankans og er þróun þeirra sýnileg starfsfólki allt árið. Sem dæmi um slíka mælikvarða má nefna þekkingu á viðskiptavinum (KYC/AML), uppitíma apps og netbanka og ánægju starfsfólks.