Fyrirtækjaþjónusta

Arion banki veitir fyrirtækjum alhliða fjármálaþjónustu. Þó að ýmissa áhrifa hafi gætt af heimsfaraldri kórónuveiru var þjónusta bankans við fyrirtæki með eðlilegum hætti og mikil umsvif bæði á lánahlið og ráðgjafarhlið.

Viðburðaríkt og farsælt ár að baki

Á árinu voru fjórar skráningar á innlendum hlutabréfamarkaði. Að þremur þeirra hafði Arion banki aðkomu, ýmist sem leiðandi aðili eða í samstarfi við aðrar fjármálastofnanir innlendar jafnt sem erlendar. Þá vann bankinn í samstarfi við erlenda banka að skráningu innlends laxeldisfyrirtækis á norskan hlutabréfamarkað snemma á nýliðnu ári. Að auki veitti bankinn ráðgjöf og hafði aðkomu að margvíslegum öðrum verkefnum, svo sem skuldabréfaútgáfu alþjóðlegs útflutningsaðila og fyrirtækjakaupum á innviðafyrirtæki innan norðurslóðasvæðisins.

Áherslur bankans í fyrirtækjaþjónustu sem kynntar voru í lok árs 2019 hafa í öllum megindráttum borið ávöxt. Sem dæmi um þennan mikilvæga árangur má nefna að í lok árs 2021 skiluðu 80% af 100 stærstu fyrirgreiðslum bankans arðsemi í takt við yfirlýst markmið, samanborið við 20% af stærstu fyrirgreiðslum bankans 2019.

Á vormánuðum var þjónusta við fyrirtæki samþætt í eitt fyrirtækjasvið sem nú þjónar allt frá smæstu fyrirtækjum landsins yfir í þau stærstu. Á haustmánuðum var svo fyrirtækjatryggingastarfsemi dótturfélagsins Varðar samþætt við fyrirtækjaþjónustu bankans, sem eykur enn frekar á vöruframboð til viðskiptavina.

Samfélagsábyrgð og umhverfismál

Arion banki hefur markað sér skýra stefnu þegar kemur að samfélagsábyrgð og umhverfis- og loftslagsmálum. „Saman látum við góða hluti gerast“ er yfirskrift stefnu bankans um samfélagsábyrgð sem kristallast í að starfa með ábyrgum hætti í sátt við samfélag og umhverfi. Stefna bankans endurspeglast í útlánum bankans og eru öll lán Arion banka til orkuiðnaðar á sviði endurnýjanlegrar orku. Lán bankans til sjávarútvegs miða í öllu að sjálfbærri nýtingu auðlindarinnar og öll fasteignaverkefni sem bankinn kemur að því að fjármagna notast við jarðvarmaorku til húshitunar.

Í framhaldi af umfangsmikilli undirbúningsvinnu árið 2020, verkferlum við mat á grænum eignum og umfangsmikilli greiningu á lánasafninu var heildstæð græn fjármálaumgjörð gefin út í júlí 2021. Græna fjármálaumgjörðin er heildstæð umgjörð utan um græna fjármögnun bankans og lánveitingar. Umgjörðin var unnin í samvinnu við Deutsche Bank og gaf Cicero álit á rammanum, sem hlaut einkunnina medium green.

Í lok árs voru um 72 ma.kr. samþykktar grænar lánveitingar til fyrirtækja og skiptast í eftirfarandi flokka:

Grænar lánveitingar
%

Á árinu skrifaði bankinn undir samning við fulltrúa Norðuráls um græna fjármögnun á nýrri framleiðslulínu í steypuskála Norðuráls á Grundartanga. Um er að ræða fjárfestingaverkefni sem hleypur á um 120 milljónum bandaríkjadala, eða um 16 milljörðum króna.

Þá eru ýmsar grænar lánavörur sem bjóðast fyrirtækjum sem uppfylla skilyrði rammans. Frekara mat á ófjárhagslegum mælikvörðum viðskiptavina okkar mun fylgja bankanum inn í nýtt ár samhliða úttekt á kolefnislosun lánasafnsins í heild.

Virk þátttaka Arion banka í uppbyggingu efnahagslífsins styður við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna númer 7 um sjálfbæra orku, markmið 8 um góða atvinnu og hagvöxt og markmið 9 um nýsköpun og uppbyggingu.

Lán Arion banka til fyrirtækja

Útlán Arion banka til fyrirtækja voru um 410 milljarðar króna eða sem nemur um 44% af heildarútlánum bankans til viðskiptavina.

Skipting lánabókar
%