Árið 2021 var Arion banka gott. Þrátt fyrir áskoranir, sem óneitanlega fylgja heimsfaraldri, dafnaði íslenskt efnahagslíf á árinu og fór Arion banki ekki varhluta af því. Lánasafn bankans til viðskiptavina óx um tæp 14% á árinu og nam um 936 milljörðum króna í árslok. Fjárhagsstaða bankans er sem fyrr mjög sterk, 23,8% eiginfjárhlutfall og 12,6% vogunarhlutfall í árslok. Eigið fé bankans nam 194 milljörðum króna í árslok og námu endurkaup og arðgreiðslur til hluthafa 31,5 milljörðum króna á árinu. Hlutfall eiginfjárþáttar 1 var 19,6% í árslok, en markmið bankans er að það sé um 17%. Fjárhagslegur styrkur bankans er því áfram góður og felur í sér svigrúm til frekari arðgreiðslna og endurkaupa.
Stöndum með okkar viðskiptavinum
Áhrif COVID-19 faraldursins á efnahagslíf, fyrirtæki og heimili eru margvísleg, en þau eru ólík eftir atvinnugreinum. Ýmsum sviðum samfélagsins hefur vegnað vel þar sem faraldurinn hefur haft takmörkuð áhrif. Önnur svið og þá einna helst ferða- og veitingaþjónusta og menningarstarf hafa áþreifanlega fundið fyrir neikvæðum áhrifum faraldursins og samkomutakmarkana. Ekki er lengur um samræmdar aðgerðir fjármálafyrirtækja og stjórnvalda að ræða heldur skoðar bankinn hvert tilfelli fyrir sig. Hefur bankinn á árinu unnið náið með þeim viðskiptavinum sem hafa þurft á stuðningi að halda og hefur sú vinna gengið vel.
Þægilegri bankaþjónusta komin til að vera
Þær öru breytingar sem hafa orðið á fjármálaþjónustu síðasta áratuginn eru komnar til að vera. Í þeim sérstöku aðstæðum sem nú eru uppi hefur komið sér vel að geta sinnt fjármálum í gegnum vef, netbanka eða app, og greitt fyrir vöru og þjónustu með snertilausum hætti. Staðan í samfélaginu hefur sýnt fram á gagnsemina og þægindin sem felast í stafrænni þjónustu. Hér á landi hefur Arion banki leitt þessa byltingu og var Arion banka appið valið besta appið á Íslandi fimmta árið í röð af viðskiptavinum bankanna í könnun MMR.
Heimsóknum viðskiptavina í útibú hefur samhliða aukinni stafrænni þjónustu fækkað og ganga þær nú út á gagnleg samtöl við ráðgjafa bankans um þætti eins og fjármögnun íbúðakaupa, sparnað, tryggingar og lífeyrismál. Af þessum sökum er minni þörf fyrir þéttriðið útibúanet um land allt. Á síðustu árum hefur Arion banki með markvissum hætti einfaldað sitt útibúanet, styrkt svokölluð kjarnaútibú sem eru í öllum landshlutum en fækkað minni útibúum. Einnig hefur verulega dregið úr meðhöndlun reiðufjár í útibúum og er svo komið að nokkur útibúa bankans meðhöndla ekki reiðufé. Þessi þróun mun halda áfram enda er hægt að leggja inn og taka út seðla í flestum hraðbönkum sem eru fjölmargir og vel dreifðir um land allt.
Við tökum hlutverk okkar alvarlega
Það hefur verið einstaklega ánægjulegt að fylgjast með uppgangi hugverkaiðnaðar hér á landi síðustu ár. Stundum hefur verið vísað til hugverkaiðnaðar sem fjórðu stoðarinnar í íslensku atvinnulífi og þá til viðbótar við sjávarútveg, orkufrekan iðnað og ferðaþjónustu. Sérstaða hugverkaiðnaðar felst meðal annars í því að hann gengur ekki á auðlindir landsins og skalanleikinn er oft mikill. Í ár, eins og undanfarin ár, hefur Arion banki unnið með spennandi félögum eins og Controlant sem eru í miklum vexti og líkleg til að gegna mikilvægu hlutverki í íslensku atvinnulífi á næstu áratugum. Ég efast ekki um að í dag eru fjölmörg ung og efnileg fyrirtæki að taka sín fyrstu skref, eða hefja sitt fyrsta vaxtarskeið, sem munu gegna mikilvægu hlutverki í íslensku efnahagslífi í framtíðinni. Þessi félög þurfa á stuðningi banka að halda og aðgengi að fjármagni til að efla sinn vöxt og þroska. Við höfum einsett okkur að leggja sérstaka rækt við það hlutverk.
Arion banki og græn fjármál
Arion banki setti sér umhverfis- og loftslagsstefnu á árinu 2019. Þar settum við okkur markmið um að draga úr kolefnisspori bankans og leggja okkar af mörkum svo Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar í loftslagsmálum. Á síðustu árum hefur bankinn boðið viðskiptavinum sínum græna fjármálaþjónustu, svo sem græn bílalán, innlán og íbúðalán, og hafa þeir tekið þessum valkostum opnum örmum.
Á árinu 2021 gaf bankinn út sína fyrstu heildstæðu grænu fjármálaumgjörð, en áður hafði bankinn gefið út fjármálaumgjörð vegna grænna innlána. Græna fjármálaumgjörðin nær til fjármögnunar bankans og lánveitinga. Með öðrum orðum þá hefur bankinn skuldbundið sig til að nýta það fjármagn sem hann sækir á lánsfjármörkuðum og með grænum innlánum í græn verkefni eins og þau eru skilgreind innan umgjarðarinnar. Þetta er mikilvægt skref fyrir okkur og gerir okkur kleift að sækja fjármagn á hagstæðari kjörum og lána áfram til grænna verkefna.
Græna fjármálaumgjörðin nær til fjármögnunar bankans og lánveitinga. Með öðrum orðum þá hefur bankinn skuldbundið sig til að nýta það fjármagn sem hann sækir á lánsfjármörkuðum og með grænum innlánum í græn verkefni eins og þau eru skilgreind innan umgjarðarinnar.
Bankinn gaf út græn skuldabréf á árinu, bæði hér á landi og erlendis, fyrir tæplega 50 milljarða króna. Græn fyrirtækjalán sem fela almennt í sér hagstæðari vexti eru hvatning til fyrirtækja um að setja kraftana og fjármagnið í verkefni sem eru umhverfisvænni og því betri fyrir framtíðina. Á árinu veitti Arion banki sitt fyrsta nýja græna fyrirtækjalán undir skilyrðum umgjarðarinnar og var það 16 milljarða lán til Norðuráls sem mun nýta fjármagnið til að reisa nýja framleiðslulínu sem mun draga úr orkunotkun um 40%.
Við erum rétt að hefja þessa vegferð og það er von mín að grænum lánveitingum Arion banka til fyrirtækja muni fjölga umtalsvert á komandi árum.
Markviss upplýsingagjöf
Á árinu skilgreindi bankinn sjálfbærniáhættu sem eina af megináhættum í starfsemi sinni. Sjálfbærni er nú með formlegum hætti hluti af stjórnskipulagi bankans og fellur undir ábyrgðarsvið stjórnar og bankastjóra. Er þetta til marks um þá áherslu sem bankinn leggur á umhverfis- og félagsþætti og stjórnarhætti (UFS) í sinni starfsemi.
Eins og undanfarin ár birtir bankinn í árs- og sjálfbærniskýrslu sinni ítarlegar ófjárhagslegar upplýsingar í takti við lög og reglur, leiðbeinandi tilmæli Nasdaq og Global Reporting Initiative (GRI). Einnig er horft til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og 10 grundvallarviðmiða Global Compact, sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð. Í annað sinn birtum við upplýsingar um stöðu bankans vegna aðildar okkar að meginreglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrga bankastarfsemi, Principles for Responsible Banking, og mat á loftslagsáhættu bankans út frá Task Force on Climate-related Financial Disclosure (TCFD) sem er nú hluti af áhættuskýrslu bankans, Pillar 3.
Deloitte hefur veitt álit með takmarkaðri vissu á ófjárhagslegri upplýsingagjöf Arion banka 2021 sem er sett fram samkvæmt Global Reporting Initiative (GRI) og UFS leiðbeiningum Nasdaq.
Öflugur hlutabréfamarkaður – 101% hækkun hlutabréfaverðs Arion banka
Arion banki var skráður í kauphallirnar á Íslandi og í Stokkhólmi sumarið 2018. Var þá um að ræða fyrstu skráningu fjármálafyrirtækis á aðalmarkað kauphallarinnar hér á landi um árabil. Síðan þá hefur gengi bankans hækkað um rúm 150%, miðað við árslok 2021. Meginþorri þeirrar hækkunar átti sér stað á síðasta ári en á árinu 2021 hækkaði gengi bankans um 101%. Var þetta mesta hækkun skráðs félags í kauphöllinni á árinu. Að einhverju leyti má segja að skráð félög hafi átt inni hækkun þar sem hækkanir síðustu ára hafa verið hóflegar. Hækkunina má einnig rekja til rekstrarbata margra félaga, þar með talið Arion banka. Umtalsverður viðsnúningur hefur átt sér stað í rekstri bankans á síðustu tveimur árum eins og arðsemi ársins upp á 14,7% á árinu ber með sér.
Hluthöfum bankans heldur áfram að fjölga, voru í árslok um 11.300 og fjölgaði um rúm 50% á árinu. Rúmlega 90% hluthafa eru innlend. Íslenskir lífeyrissjóðir bættu nokkuð við eignarhlut sinn á árinu og áttu tæplega 47% hlutafjár í Arion banka í árslok.
Rúmlega 90% hluthafa eru innlend. Íslenskir lífeyrissjóðir bættu nokkuð við eignarhlut sinn á árinu og áttu tæplega 47% hlutafjár í Arion banka í árslok.
Minni umsvif ríkisins á fjármálamarkaði
Aukinn áhugi almennings á hlutabréfaviðskiptum hefur einnig haft jákvæð áhrif á hlutabréfamarkaðinn hér á landi. Áhugi almennings hefur meðal annars aukist í kjölfar tveggja vel heppnaðra hlutabréfaútboða þar sem þátttaka almennings var mikil, annars vegar útboð Icelandair á árinu 2020 og hins vegar útboð Íslandsbanka á árinu 2021.
Það er mikilvægt að íslenska ríkið hafi dregið úr eignarhlut sínum í Íslandsbanka með því að efna til hlutafjárútboðs. Það er á engan hátt eðlileg samkeppnisstaða á fjármálamarkaði að íslenska ríkið eigi að fullu tvo af þremur stærstu bönkum landsins. Það er jákvætt að ríkið hyggist draga enn frekar úr eignarhaldi sínu í Íslandsbanka á árinu og væntum við þess að Íslandsbanki verði fyrr en síðar alfarið kominn úr eigu ríkisins.
Það er mikilvægt fyrir þróun skilvirks fjármálamarkaðar að ríkið haldi áfram á þeirri braut að draga úr sínum umsvifum. Því væri æskilegt að ríkið hugi sem fyrst að því að draga úr eignarhaldi sínu á Landsbankanum, þó að vissulega megi færa rök fyrir því að ríkið eigi til framtíðar ráðandi hlut í bankanum.
Sterkur rekstur og efnahagur
Arion banki stendur afar traustum fótum og er í kjörstöðu til að sinna sínu hlutverki í íslensku samfélagi. Mikill árangur hefur náðst í rekstri bankans og þær áherslu- og stefnubreytingar sem hrint hefur verið í framkvæmd á undanförnum tveimur árum hafa sannað gildi sitt. Öllu starfsfólki bankans, að eftirlitseiningum undanskildum, stóðu á árinu til boða kaupréttir og þátttaka í kaupaukakerfi sem hefur vel skilgreind markmið sem snúa að öllum helstu sviðum starfseminnar. Þátttaka starfsfólks er mikilvægur þáttur í að samtvinna hagsmuni þess og bankans og tel ég að vel hafi tekist til.
Áform bankans um að greiða út umfram eigið fé, þ.e eigið fé umfram lögbundnar kröfur og það sem bankinn telur ákjósanlegt, standa óhögguð. Þó að bankinn hafi á árinu 2021 greitt 31,5 milljarða króna til hluthafa sinna, fyrst og fremst í formi endurkaupa, þá er umfram eigið fé miðað við árslok 2021 um 21 milljarður króna. Markmið bankans er að eiginfjárþáttur 1 nemi um 17% en hann var í árslok 2021 19,6%. Hátt hlutfall eiginfjárþáttar 1 í árslok skýrist meðal annars af góðri afkomu bankans á síðustu árum og tilmælum stjórnvalda um að fjármálafyrirtæki skuli ekki greiða út arð. Á næsta aðalfundi bankans sem fram fer 16. mars 2022 verður tekin fyrir tillaga stjórnar um að á árinu 2022 verði greiddir út 22,5 milljarðar króna í arð. Þó að markmiðinu um 17% eiginfjárþátt 1 verði ekki náð með þessu er um mikilvægt skref í rétta átt að ræða.
Bjart fram undan
Þrátt fyrir að enn geisi heimsfaraldur þá er ekki annað hægt að segja en að spár greiningaraðila fyrir árið 2022 séu nokkuð jákvæðar þegar kemur að efnahagslífi landsins. Gert er ráð fyrir að hagvöxtur verði á bilinu 5-6% sem verður að teljast gott ef satt reynist. Við munum áfram leggja okkar af mörkum og styðja við okkar viðskiptavini í þeirra verkefnum, stórum og smáum. Þannig sinnum við hlutverki okkar best og styðjum við nýsköpun, uppbyggingu og framþróun hér á landi, samfélaginu öllu til góða.
Ég vil þakka starfsfólki og stjórn Arion banka fyrir samstarfið og einstaklega vel unnin störf á árinu 2021.