Fjármögnun og lausafjárstaða
Á árinu 2021 hélt bankinn áfram að vinna að aukinni fjölbreytni fjármögnunarkosta, meðal annars með útgáfu grænna skuldabréfa í evrum og íslenskum krónum auk útgáfu sértryggðra skuldabréfa í evrum, fyrstur íslenskra banka. Bankinn stýrir fjármögnun og lausafé með ábyrgum hætti sem meðal annars endurspeglast í sterkum lausafjárhlutföllum og jöfnum endurgreiðsluferli langtímaskulda á komandi árum.
Skuldabréfaútgáfur á erlendum mörkuðum
Í september 2021 gaf Arion banki út fyrstu sértryggðu skuldabréfaútgáfu íslensks fjármálafyrirtækis í evrum að fjárhæð 300 milljónir evra eða að jafnvirði um 45 milljarða íslenskra króna. Skuldabréfin voru seld á kjörum sem jafngilda 0,27% álagi á millibankavexti, sem eru bestu kjör sem íslenskur aðili, að íslenska ríkinu meðtöldu, hefur fengið á erlendum lánsfjármörkuðum frá stofnun Arion banka fyrir um 13 árum. Umframeftirspurn var eftir skuldabréfunum en í heild bárust tilboð frá yfir 30 fjárfestum frá 12 löndum fyrir rúmlega 700 milljónir evra. Skuldabréfin voru seld til eignastýringarfyrirtækja, opinberra aðila og banka. Deutsche Bank AG, Barclays Bank Ireland PLC og UBS Europe SE sáu um útgáfuna fyrir hönd bankans.
Í júlí 2021 gaf Arion banki út sína fyrstu grænu skuldabréfaútgáfu í evrum. Grænu skuldabréfin voru til fjögurra ára að upphæð 300 milljónir evra. Umframeftirspurn var eftir skuldabréfunum en í heild bárust tilboð frá yfir 70 fjárfestum fyrir rúmlega 600 milljónir evra.
Skuldabréfin voru seld á kjörum sem jafngilda 0,80% álagi á millibankavexti. Deutsche Bank AG, Barclays Bank Ireland PLC, ABN Amro Bank N.V. og Citigroup Global Markets Europe sáu um útgáfuna fyrir hönd bankans. Skuldabréfin voru gefin út undir grænni fjármálaumgjörð bankans. Í umgjörðinni er með skýrum og gegnsæjum hætti gerð grein fyrir þeim skilyrðum sem lánveitingar bankans þurfa að uppfylla til að teljast grænar.
Skuldabréfaútgáfur á innlendum mörkuðum
Í desember 2021 gaf Arion banki út sína fyrstu grænu skuldabréfaútgáfu í krónum. Nýi flokkurinn ARION 26 1222 GB fékk góðar viðtökur og voru alls seld bréf fyrir 3.640 m.kr. til breiðs hóps innlendra fjárfesta. Skuldabréfin eru til 5 ára og bera fasta 4,70% óverðtryggða vexti og eina endurgreiðslu höfuðstóls á lokagjalddaga árið 2026. Skuldabréfin voru gefin út undir grænni fjármálaumgjörð bankans.
Arion banki hélt áfram útgáfu sinni á sértryggðum skuldabréfum sem tryggð eru samkvæmt lögum nr. 11/2008 um sértryggð skuldabréf. Á árinu 2021 voru gefin út sértryggð skuldabréf fyrir 19,7 milljarða króna. Þar af voru 18 milljarðar til eigin nota.
Arion banki endurnýjaði samninga við Kviku, Íslandsbanka og Landsbankann um viðskiptavakt á sértryggðum skuldabréfum á Nasdaq Íslandi útgefnum af Arion banka. Tilgangur samninganna er að efla viðskipti með markflokka sértryggðra skuldbréfa sem eru útgefin af bankanum.
Endurgreiðsluferill fjármögnunar
Samsetning fjármögnunar
Lánshæfismat
Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið Standard & Poor's (S&P) staðfesti lánshæfismat Arion banka, BBB, og horfur héldust áfram stöðugar. Skammtímalánshæfismat bankans er A-2.
Í tilkynningu frá Standard & Poor's segir m.a. að gert sé ráð fyrir að Arion banki verði áfram með öfluga eiginfjárstöðu og sterk lausafjárhlutföll. Afkoma bankans verði studd af auknu kostnaðarhagræði, stýringu fjármögnunarkostnaðar, sterkum lánavexti á grundvelli aukinnar spurnar eftir íbúðalánum, umsvifum á fyrirtækja- og fjárfestingabankasviði og virkni á fjármagnsmörkuðum.
Þrátt fyrir að Arion banki sé í góðri stöðu til að njóta góðs af jákvæðri þróun í íslensku efnahagslífi næstu tvö árin endurspegla stöðugar horfur áframhaldandi óvissu varðandi afleiðingar heimsfaraldursins og þróun ríkisfjármála og peningastefnu.
Helstu áhættur liggja í lánveitingum til ferðaþjónustu og atvinnuhúsnæðis. Einnig gæti krefjandi rekstrarumhverfi og samkeppni dregið úr arðsemi. Jafnframt er það mat S&P að lánasafn Arion banka skorti landfræðilega fjölbreytni, þar sem bankinn starfi nær eingöngu á Íslandi og sé þannig háður sveiflukenndu íslensku hagkerfi.
Standard & Poor's (S&P)
Flokkur | Arion banki | Íslenska ríkið* |
---|---|---|
Langtíma | BBB | A |
Skammtíma | A-2 | A-1 |
Horfur | Stöðugar | Stöðugar |
Síðasta mat | 18. október 2021 | 15. maí 2020 |
*Skuldbindingar í erlendri mynt. Frekari upplýsingar má fá á www.sedlabanki.is.
Lánshæfismat - tímalína
Lausafjárstaða og lausafjáráhætta
Bankinn er fjármagnaður að stórum hluta með innlánum frá einstaklingum, fyrirtækjum og fagfjárfestum. Eitt af meginmarkmiðum Arion banka er að viðhalda sterku lausafjárþekjuhlutfalli (e. liquidity coverage ratio, LCR) til að styðja við stefnu og framgang bankans. Lausafjárþekjuhlutfallið, sem er reiknað samkvæmt reglum Seðlabanka Íslands og evrópskum reglum byggðum á Basel III staðlinum, tekur á áhættuþáttum sem snerta hvikleika innlána og tímamisvægi eigna og skulda. Í árslok var lausafjárþekjuhlutfall bankans 203% og fyrir erlenda gjaldmiðla var hlutfallið 607%, sem er vel yfir þeim mörkum sem reglur Seðlabankans kveða á um.
Fjármögnunarhlutfall bankans (e. Net Stable Funding Ratio, NSFR) var 121% í árslok 2021 og 212% í erlendum gjaldmiðlum. Hlutfallið vegur tiltæka stöðuga fjármögnun bankans gagnvart nauðsynlegri stöðugri fjármögnun samkvæmt aðferð sem tekur m.a. tillit til seljanleika eigna og gjalddaga skulda. Há hlutföll draga fram styrka fjármögnun bankans og getu til að styðja við útlánastarfsemi bankans í framtíðinni.