Helstu fjárhagsniðurstöður
Hagnaður samstæðu Arion banka á árinu 2021 nam 28,6 milljörðum króna samanborið við 12,5 milljarða króna á árinu 2020. Arðsemi eigin fjár var 14,7% en 6,5% á árinu 2020.
Betri afkoma 2021 skýrist að mestu af því að hreinar þóknanatekjur, hreinar fjármunatekjur, viðsnúningur í virðisbreytingum útlána og afkoma af eignum til sölu og aflagðri starfsemi skila verulega betri niðurstöðum.
Hagnaður ársins
Rekstrartekjur
Rekstrartekjur námu 58,2 milljörðum króna samanborið við 50,8 milljarða króna á árinu 2020, sem er 15% aukning milli ára.
Hreinar vaxtatekjur hækkuðu um 3% á árinu 2021. Vaxtamunur af meðalstöðu vaxtaberandi eigna var 2,8% samanborið við 2,9% á árinu 2020. Meðalstaða vaxtaberandi eigna hækkaði um 72 milljarða króna milli ára eða sem nemur um 6,7%, einkum útlán, en á sama tíma hækkuðu vaxtaberandi skuldir um 84 milljarða króna eða um 9,2%, einkum innlán og lántaka. Framan af ári voru stýrivextir Seðlabanka Íslands í sögulegu lágmarki en hækkunarferli hófst í maí og stendur enn. Bankinn gerir ráð fyrir vaxtamun upp á 2,7%-2,9% við núverandi aðstæður en spár gera ráð fyrir frekari hækkun vaxta sem gæti haft jákvæð áhrif á vaxtamun.
Hreinar vaxtatekjur og vaxtamunur
Hreinar þóknanatekjur hækkuðu um 26% á árinu 2021 samanborið við 2020. Aukninguna má rekja til flestra deilda bankans en hækkunin er mest í þóknunum af útlánum og eignastýringu, þar sem árangurstengdar þóknanir skýra hluta aukningarinnar. Þá hafa veltutengdar þóknanir, t.d. af gjaldeyri og kortaveltu erlendra ferðamanna, aukist á ný eftir lækkun á árinu 2020 vegna faraldursins.
Hreinar þóknanatekjur
Hreinar tekjur af tryggingum námu 3,4 milljörðum króna á árinu 2021 samanborið við 3,1 milljarð króna á árinu 2020, sem samsvarar 12% aukningu. Tryggingaiðgjöld hækkuðu um 12% frá 2020. Samsett hlutfall á árinu 2021 nam 93,2% samanborið við 94,4% á árinu 2020, sem er vel samkeppnishæft hlutfall við helstu samkeppnisaðila á íslenska markaðnum.
Hreinar tekjur af tryggingum
Hreinar fjármunatekjur hækkuðu um 127% frá árinu 2020. Veruleg umskipti urðu á afkomu af verðbréfum á árinu, einkum á fyrri hluta ársins. Afkoma af hlutabréfum var verulega góð, eftir nokkuð erfitt ár 2020 vegna heimsfaraldursins. Markaðsaðstæður á innlendum og alþjóðlegum verðbréfamörkuðum voru mjög hagstæðar á árinu 2021.
Hreinar fjármunatekjur
Aðrar rekstrartekjur námu 1,8 milljörðum króna samanborið við 2,1 milljarð króna á árinu 2020 sem jafngildir 16% lækkun. Hagnaður af sölu fasteigna, sem áður höfðu verið í rekstri bankans, hagnaður af sölu fjárfestingaeigna og gangvirðisbreytingar fjárfestingareigna, einkum land fyrir íbúðabyggð á Reykjavíkursvæðinu í eigu Landeyjar dótturfélags bankans, voru stærsti hluti annarra rekstrartekna á árinu 2021.
Aðrar rekstrartekjur
Rekstrarkostnaður
Rekstrarkostnaður nam samtals 25,9 milljörðum króna samanborið við 24,4 milljarða króna á árinu 2020, sem samsvarar um 6% hækkun milli ára. Kostnaðarhlutfallið var 44,4% á árinu 2021 samanborið við 48,1% árið 2020. Hækkun í rekstrarkostnaði milli ára er einkum tilkomin vegna kostnaðar við kaupaukakerfi upp á 1,6 milljarða króna á árinu.
Laun og launatengd gjöld námu 14,6 milljörðum króna, sem er 19% hækkun frá fyrra ári. Eins og áður segir er sú hækkun einkum tilkomin vegna kostnaðar við kaupaukakerfi á árinu. Fjöldi stöðugilda hjá samstæðunni var 751 í árslok en 776 í árslok 2020, sem samsvarar 3% fækkun milli ára.
Annar rekstrarkostnaður nam 11,2 milljörðum króna á árinu 2021, sem er lækkun um 7% frá 2020. Lækkunin milli ára er einkum í kostnaði af upplýsingatækni, þar sem bankinn hefur í meira mæli tekið til sín þjónustu sem áður hafði verið útvistað, og húsnæðiskostnaði, þar sem einföldun í útibúaneti hefur lækkað húsnæðiskostnað verulega.
Rekstrarkostnaður / kostnaðarhlutfall
Hrein virðisbreyting var jákvæð um 3,2 milljarða króna á árinu 2021 samanborið við neikvæð áhrif upp á 5,0 milljarða á árinu 2020. Viðsnúninginn má einkum rekja til þess að óvissa varðandi áhrif heimsfaraldursins minnkaði verulega og horfur eru mun bjartari varðandi ferðamannastraum og fjárfestingu innanlands á næstu misserum. Bankinn skilgreindi strax í upphafi ákveðinn hluta lánasafns síns með áhættu vegna faraldursins. Í árslok voru um 8% af lánasafninu skilgreind með slíka undirliggjandi áhættu en voru 12% í árslok 2020.
Tekjuskattur nam 6,8 milljörðum króna samanborið við 3,2 milljarða króna árið 2020 sem samsvarar 110% hækkun milli ára. Tekjuskattur, eins og hann er settur fram í ársreikningi, samanstendur af 20% tekjuskatti af hagnaði og 6% sérstökum fjársýsluskatti sem lagður er á hagnað fjármálafyrirtækja umfram einn milljarð króna. Virkt tekjuskattshlutfall var 19,9% samanborið við 16,2% árið 2020. Tekjuskattshlutfall sveiflast einkum vegna breyttrar samsetningar á tekjum, þar sem mismunandi hlutfall tekna er af söluhagnaði og virðishækkun hlutabréfa sem ekki er skattskyld. Til viðbótar við tekjuskatt greiða Arion banki og önnur stærri íslensk fjármálafyrirtæki bankaskatt (sem er 0,145% á skuldir umfram 50 milljarða króna) og 5,5% fjársýsluskatt af launum starfsmanna fjármálafyrirtækja. Samantekt ofangreindra skatta má sjá á myndinni hér fyrir neðan.
Skattar
Hagnaður af starfsemi til sölu nam 1,4 milljörðum króna á árinu 2021 samanborið við 4,3 milljarða króna tap á árinu 2020. Helsta skýring á þessari miklu sveiflu er að afkoma Valitor batnaði umtalsvert á árinu og að sala eigna úr Sólbjargi skilaði nokkrum hagnaði. Virði eigna Stakksbergs lækkaði lítillega á árinu.
Efnahagsreikningur
Eignir
Heildareignir samstæðu Arion banka hækkuðu um 12% frá árslokum 2020, þar sem hækkun á lánum til viðskiptavina og aukning lausafjár voru helsta ástæða breytinga.
Sjóður og innstæður hjá Seðlabanka Íslands og lán til lánastofnana námu 99,2 milljörðum króna í árslok 2021 og hækkuðu um 29,0 milljarða króna eða um 41,1% frá árslokum 2020. Lausafjárstaða hefur einkum breyst vegna aukinna innlána og lántöku á árinu 2021 en að því frátöldu er lausafjárstýring meginskýring breytinga á þessum liðum.
Lán til viðskiptavina námu 936,2 milljörðum króna í árslok 2021 sem er um 13,8% hækkun frá árslokum 2020. Lán til einstaklinga jukust um 21,5% á árinu þar sem íbúðalán eru ráðandi hluti hækkunarinnar og eru í árslok 50% lánabókarinnar, hækka úr 46% í árslok 2020. Lán til fyrirtækja jukust um 5,2% á árinu 2021, einkum á fjórða ársfjórðungi, en eftirspurn fyrirtækja eftir nýjum lánum er umtalsverð.
Líkt og á árinu 2020 var veruleg velta í lánabókinni á árinu 2021, bæði í formi endurfjármögnunar og nýrra lánveitinga. Hlutfallslega var áfram mesta breytingin í íbúðalánum til einstaklinga, þar sem mikill meirihluti íbúðalána bankans er ný lán eða lán sem voru endurfjármögnuð á síðastliðnum tveimur árum. Hið sama má segja um fyrirtækjalán, þar sem áfram var mikið um endurfjármögnun sem og ný lán.
Heilbrigði lánabókarinnar batnaði verulega á árinu. Hlutfall vandræðalána, sem skilgreind hafa verið sem lán með sértæka niðurfærslu, var í árslok 2021 1,9% og lækkaði úr 2,6% í árslok 2020. Lán í greiðsluhléi hafa lækkað úr 4,13% í árslok 2020 í 0,03% en á móti hefur hlutfall lána með ívilnun hækkað úr 1,8% í 4,3%, sem er eðlilegt í kjölfar faraldursins.
Lán til viðskiptavina
Lánasafn samstæðunnar er vel dreift. Ríflega helmingur lánasafnsins er til einstaklinga, þar af um 50% íbúðalán, og tæplega helmingur er til fyrirtækja í hinum ýmsu atvinnugreinum og er skiptingin í takt við efnahagsumhverfið.
Lán til viðskiptavina eftir atvinnugreinum
Verðbréfaeign nam 225,7 milljörðum króna í árslok 2021 samanborið við 227,3 milljarða króna í árslok 2020. Aukning milli ára er mest í hlutabréfum og bréfum í eigu Varðar. Hagstæð þróun á verðbréfamörkuðum og lausafjárstýring eru helsta ástæða breytinga á verðbréfastöðum, en samsetning verðbréfasafns ræðst að jafnaði mikið af því lausafé sem bankinn hefur til umráða hverju sinni.
Verðbréfaeign
Eignir og starfsemi til sölu námu 16,0 milljörðum króna í árslok samanborið við 16,8 milljarða króna í árslok 2020. Dótturfélögin Valitor hf., Stakksberg ehf. og Sólbjarg ehf. eru flokkuð sem starfsemi til sölu. Heildareignir Valitor námu 12,3 milljörðum króna í árslok 2021 samanborið við 11,9 milljarða króna í árslok 2020, að mestu leyti viðskiptakröfur, fastafjármunir og óefnislegar eignir. Hreint bókfært virði þessara þriggja félaga í árslok 2021 nam 10,5 milljörðum króna.
Skuldir og eigið fé
Skuldir samstæðu Arion banka jukust um 14,8% frá árslokum 2020. Eigið fé lækkaði vegna endurkaupa á eigin bréfum og arðgreiðslu, samtals að fjárhæð 31,5 milljarðar króna, en hækkaði vegna 28,6 milljarða króna afkomu ársins.
Skuldir og eigið fé
Innlán frá viðskiptavinum námu 655,5 milljörðum króna í árslok 2021 og jukust um 15,3% frá árslokum 2020. Hlutfall lána af innlánum var 145% í árslok 2020 og lækkaði á árinu 2021 niður í 143% þrátt fyrir umtalsverðan lánavöxt. Samsetning innlána hefur þróast með hagfelldum hætti á þann veg að stærri hluti innlána er nú frá einstaklingum, smærri fyrirtækjum og fyrirtækjum með önnur viðskipti hjá bankanum en hlutfall stofnanafjárfesta heldur áfram að lækka. Innlán eru, nú sem áður, mikilvægasta fjármögnun bankans og bankinn leggur enn frekari áherslu á að halda eins sterkri stöðu á innlánamarkaði og kostur er.
Innlán
Lántaka bankans nam 356,6 milljörðum króna í árslok 2021, sem er 19,3% hækkun frá árslokum 2020. Hækkun ársins er mest vegna nýrrar útgáfu í evru, en lokið var við tvær 300 milljón evra útgáfur á þriðja ársfjórðungi. Annars vegar var um að ræða útgáfu undir grænum útgáfuramma bankans og hins vegar sértryggð skuldabréfaútgáfa, sem er sú fyrsta af þeirri tegund sem íslenskur banki hefur ráðist í. Endurgreiðsluferli lántöku er hagstætt og bankinn stendur vel þegar kemur að endurfjármögnun sem sterkur útgefandi sértryggðra bréfa á íslenskum markaði og reglulegur útgefandi á alþjóðlegum mörkuðum.
Víkjandi lántaka nam 35,0 milljörðum króna í árslok samanborið við 36,1 milljarð króna í árslok 2020. Breytingin er eingöngu vegna gengisbreytinga, þar sem meirihluti lántökunnar er í erlendri mynt.
Eigið fé hluthafa bankans nam 193,9 milljörðum króna í árslok 2021 samanborið við 197,7 milljarða í árslok 2020. Breytinguna má einkum skýra með afkomu ársins að fjárhæð 28,6 milljarðar króna en til lækkunar koma kaup á eigin hlutabréfum og arðgreiðsla samtals að fjárhæð 31,5 milljarðar króna. Hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 hjá bankanum nam 19,6% í lok árs 2020, samanborið við 22,3% í árslok 2020. Vogunarhlutfall var 12,6% í árslok 2021 samanborið við 15,1% í árslok 2020 en þrátt fyrir lækkun er það mjög hátt í öllum samanburði á alþjóðlegum bankamarkaði. Við útreikning eiginfjárhlutfalla er tekið tillit til fyrirhugaðrar arðgreiðslu að fjárhæð um 22,5 milljarðar króna í kjölfar aðalfundar í mars og fyrirhugaðra endurkaupa að fjárhæð 4,3 milljarðar króna á næstu vikum, sem Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands gaf heimild fyrir í október 2021. Í lok ársins hafði bankinn 48,6 milljarða króna í umfram eigið fé, sé horft til lágmarkskrafna eftirlitsaðila um eiginfjárþátt 1, og 21 milljarð króna umfram þau 17% viðmið um eiginfjárþátt 1 sem bankinn hefur sett sér. Þetta er umfram eigið fé að teknu tilliti til áður tilgreindrar arðgreiðslu og endurkaupa á eigin bréfum upp á samtals 26,8 milljarða króna sem er liður í þeirri stefnu bankans að endurskipuleggja eiginfjársamsetningu sína. Sú endurskipulagning er til hagsbóta fyrir hluthafa og rekstur bankans í því samkeppnisumhverfi sem hann vinnur í.