Mannauður

Mannauðsstefna Arion banka miðar að því að skapa jákvætt og hvetjandi vinnuumhverfi og styðja við starfsfólk í lífi og starfi. Lögð er rík áhersla á að halda í og laða að framúrskarandi starfsfólk og styðja við það í faglegum og persónulegum vexti. Við sköpum jöfn tækifæri og leggjum áherslu á að auka færni starfsfólks með árangursdrifinni menningu. Í sameiningu leggjum við okkur fram við að skilja þarfir og uppfylla væntingar viðskiptavina okkar, því upplifun þeirra er hjartað í Arion banka.

Lesa nánar um mannauðsstefnuna

Starfskjarastefna Arion banka

Aðalfundur Arion banka samþykkir árlega starfskjarastefnu fyrir félagið, þar sem fram koma meginsjónarmið og atriði sem stjórn bankans og framkvæmdastjórn skulu horfa til, m.a. í tengslum við ákvörðun starfskjara. Samkvæmt starfskjarastefnu sem samþykkt var á aðalfundi bankans árið 2021 skal stefnt að því að bjóða á hverjum tíma samkeppnishæf laun til að bankinn geti laðað til sín og haldið í framúrskarandi starfsfólk og störf hjá bankanum séu eftirsóknarverð í augum hæfra einstaklinga.

Við framkvæmd starfskjarastefnunnar er haft að leiðarljósi að hún stuðli ekki að óeðlilegri áhættutöku heldur hvetji til þess að langtímasjónarmiða sé gætt og tryggi heilbrigðan rekstur bankans. Starfskjarastefnan er liður í að gæta langtímahagsmuna eigenda bankans, starfsfólks, viðskiptavina og annarra hagsmunaaðila með skipulegum og gagnsæjum hætti.

Lesa nánar um framkvæmd starfskjarastefnunnar árið 2021

Framþróun og ár breytinga 

Árið 2021 var ár breytinga í Arion banka. Árið hófst á því að ný stefna var kynnt fyrir starfsfólki ásamt því að nýr hornsteinn bættist við þá sem við höfum unnið eftir undanfarin ár. Hornsteinarnir okkar eru leiðbeinandi í öllu sem við gerum og leggur nýi hornsteinninn „Finnum lausnir“ áherslu á það lausnamiðaða hugarfar sem við viljum að einkenni okkar starfsfólk.

Covid-19 hélt áfram að setja mark sitt á starfsumhverfið en starfsfólkið okkar hélt áfram að fara fram úr væntingum og sýna hvað í því býr. Árangur bankans síðasta árið er til marks um það og saman náðum við góðum árangri með okkar viðskiptavinum.

Á árinu setti bankinn sér fjarvinnustefnu til þess að mæta kröfum starfsfólks um fjölbreyttara starfsumhverfi og aukinn sveigjanleika. Við leggjum mikla áherslu á að starfsfólki okkar líði vel og að gott jafnvægi sé á milli vinnu og einkalífs. Mælingar á upplifun starfsfólks á jafnvægi vinnu og einkalífs voru mun betri í ár en á síðasta ári og teljum við að aukinn sveigjanleiki og fjölbreytni hafi þar áhrif. Um mitt árið var tilkynnt um aukið samstarf Arion banka og Varðar sem hafði í för með sér hinar ýmsu breytingar fyrir starfsfólk beggja félaga. Starfsemi Varðar fluttist um set og er nú komin yfir í Borgartún 19 og þurfti að aðlaga húsnæðið að auknum fjölda starfsfólks. Á sama tíma og samþætting fjármála- og tryggingarstarfsemi hefur verið flókin og tímafrek hefur verið gaman að sjá kraftinn og metnaðinn sem býr í mannauðinum okkar.

Á haustmánuðum gerðum við einnig breytingar á skipuriti bankans, stofnuðum nýtt svið sem fékk nafnið Upplifun viðskiptavina og fengum inn tvo nýja aðila í framkvæmdastjórn. Við bjóðum nýtt samstarfsfólk velkomið og horfum full tilhlökkunar fram á veginn.

Á árinu kynntum við nýja jafnréttis- og mannréttindastefnu ásamt aðgerðaáætlun í jafnréttismálum til næstu þriggja ára. Meðal markmiða bankans er að stuðla að jöfnum kynjahlutföllum í nefndum, starfseiningum og starfaflokkum og að fæðingarorlof sé nýtt óháð kyni. Til að styðja við það markmið var stigið það skref að tryggja starfsfólki sem næst 80% launa í fæðingarorlofi í sex mánuði. Sú aðgerð vakti mikla athygli og erum við bjartsýn á að hún muni skila fleiri feðrum í fæðingarorlof og fleiri konum í hóp stjórnenda þegar fram líða stundir. Einnig kynntum við stefnu um starfslok vegna aldurs. Markmiðið með slíkri stefnu er að starfsfólk upplifi sveigjanleika og að komið sé til móts við óskir þess þegar styttist í starfslok vegna aldurs.

Það er óhætt að segja að árið 2021 hafi verið krefjandi en á sama tíma náðum við að ljúka mörgum mikilvægum verkefnum. Mælingar Arion vísitölunnar sýna að starfsánægja er mikil og að starfsfólk er stolt af því að vinna hjá bankanum. Við horfum því björtum augum á nýtt ár og hlökkum til að takast á við allar þær áskoranir sem verða á okkar vegi.

Helga Halldórsdóttir, forstöðumaður mannauðs

Fjölbreytileiki og jöfn tækifæri

Hjá Arion banka starfar öflugur hópur fólks með fjölbreyttan bakgrunn. Meðalaldur starfsfólks er rúm 42 ár og meðalstarfsaldur er tæp 11 ár. Í lok árs 2021 var heildarfjöldi stöðugilda 619 samanborið við 648 stöðugildi í lok árs 2020.

Starfsfólk hefur val um hvort og í hvaða stéttarfélag það greiðir en flestir eru meðlimir í Samtökum starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF). Einnig er mikill meirihluti starfsfólks félagar í starfsmannafélagi bankans sem ber nafnið Skjöldur.

Kynjaskipting starfsfólks
Aldursdreifing starfsfólks

Jafnréttismál

Arion banki hefur sett sér skýra stefnu í jafnréttis- og mannréttindamálum og ber bankastjóri ábyrgð á framgangi málaflokksins innan bankans. Bankastjóri situr í jafnréttisnefnd ásamt fulltrúum starfsfólks. Á árinu var ný jafnréttis- og mannréttindastefna kynnt ásamt aðgerðaáætlun í jafnréttismálum til þriggja ára. Markmið stefnunnar og áætlunarinnar er að skapa umhverfi þar sem fólk með sambærilega menntun, starfsreynslu og ábyrgð býr við jöfn tækifæri og kjör, án tillits til kyns, kynvitundar, kynhneigðar, uppruna, þjóðernis, litarhafts, aldurs, fötlunar, trúar eða annarrar stöðu. Í nýju áætluninni er aukin áhersla á að jafna kynjahlutföll innan bankans, ekki einungis á meðal stjórnenda heldur einnig innan starfaflokka, nefnda og starfseininga.

Ein aðgerðin sem var kynnt snýr að því að starfsfólki bankans verði tryggð sem næst 80% af launum á meðan á töku fæðingarorlofs stendur. Þá hvetur bankinn foreldra til að nýta fæðingarorlofsrétt sinn að fullu. Til lengri tíma litið er markmiðið að fjölga feðrum sem nýta fæðingarorlofsrétt sinn, minnka launamuninn enn frekar og jafna hlut kynjanna í hópi stjórnenda og innan starfaflokka.

Kynjaskipting stjórnenda
%

Frá árinu 2015 hefur bankinn verið með jafnlaunakerfi og jafnlaunavottun. Markmiðið er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti. Árið 2018 fékk bankinn jafnlaunamerki velferðarráðuneytisins fyrstur íslenskra banka og þá sýndu niðurstöður launagreiningar 2,4% óútskýrðan launamun kynjanna. Árið 2021 fór bankinn í gegnum viðhaldsúttekt þar sem niðurstöður launagreiningar sýndu 0,1% mun miðað við heildarlaun. Okkar markmið er að niðurstöður launagreiningar séu undir 1% og erum við því afar stolt af þeim góða árangri sem náðst hefur á þessu sviði. Til viðbótar við markmið um niðurstöður launagreiningar hefur bankinn sett sér markmið um að miðgildi heildarlauna karla í hlutfalli við heildarlaun kvenna lækki niður fyrir 1,3 á næstu þremur árum. Miðgildi heildarlauna karla í hlutfalli við heildarlaun kvenna árið 2021 var 1,43. Helsta tækifærið til að jafna miðgildi heildarlauna er að jafna hlut kynjanna í mismunandi starfaflokkum.

Arion banki er aðili að Jafnréttissáttmála UN Women og UN Global Compact. Jafnréttissáttmálinn er alþjóðleg yfirlýsing og samkomulag á vegum Sameinuðu þjóðanna sem fyrirtæki og stofnanir geta haft að leiðarljósi við innleiðingu ábyrgra starfshátta, óháð landi og atvinnugrein, og snúa viðmiðin fyrst og fremst að kynjajafnrétti. Bankinn er einnig aðili að Global Compact, sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð fyrirtækja og skuldbindur sig til að vinna að tíu grundvallarviðmiðum Sameinuðu þjóðanna sem varða samfélagsábyrgð, þar með töldum mannréttindum. Áhersla Arion banka á jafnrétti styður við fimmta heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem snýr að jafnrétti kynjanna (e. gender equality).

Bankinn hefur einnig undirritað viljayfirlýsingu um Jafnvægisvogina, hreyfiafl Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA). Í ár fékk Arion banki viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar, annað árið í röð. Þeir aðilar sem hljóta viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar eru þeir sem hafa náð að jafna hlutfall kynja í efsta lagi stjórnunar innan fyrirtækisins en markmiðið hefur verið sett við 40/60 kynjahlutfall í efsta stjórnendalagi fyrirtækja.

Lesa nánar um Jafnréttis- og mannréttindastefnuna

Velferð og ánægja starfsfólks

Starfsmannakönnun Arion banka sem nefnist Arion vísitala er send reglulega til alls starfsfólks bankans. Tilgangur Arion vísitölunnar er þríþættur:

  • Að mæla upplifun starfsfólks á eigin störfum, starfsumhverfi og líðan á vinnustað
  • Að vera rödd starfsfólks til að koma ábendingum hratt og auðveldlega á framfæri
  • Að finna tækifæri til umbóta og bregðast við vandamálum á skjótan og öruggan hátt

Niðurstöður Arion vísitölunnar sýna okkur að starfsfólki bankans líður almennt vel í vinnunni og er ánægt með starfsumhverfið. Meðaltal Arion vísitölunnar árið 2021 var 4,46 samanborið við 4,39 árið 2020 (á kvarðanum 1-5). Einn af lykilmælikvörðum bankans er að meðmælaeinkunn starfsfólks (sNPS) þróist með jákvæðum hætti. Mælingin segir til um það hvort starfsfólk mæli með bankanum sem vinnustað við vini og vandamenn og er kvarðinn á bilinu -100 til 100.

Meðmælaeinkunn starfsfólks

EKKO

Hjá Arion banka er rík áhersla lögð á að samskipti einkennist af gagnkvæmri virðingu og að starfsfólki líði vel. Einelti, kynbundin eða kynferðisleg áreitni, sem og annað ofbeldi (EKKO) er ekki undir neinum kringumstæðum umborið. Árlega eru gerðar mælingar á því hvort starfsfólk hafi upplifað einelti, kynbundna eða kynferðislega áreitni og ofbeldi og sýna niðurstöður mælinga sem gerðar voru árið 2021 að allir fjórir þættir EKKO mælast talsvert undir meðaltali gagnabankans sem miðað er við. Hjá bankanum er starfandi eineltisteymi sem ber ábyrgð á stefnu, verkferlum og fræðslu í tengslum við EKKO. Öllu starfsfólki stóð til boða að sækja fræðslu í þessum málaflokki á árinu.

Heilsuvernd

Hjá Arion banka er lögð áhersla á að tryggja öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi. Fastráðnu starfsfólki stendur til boða að fara í reglulegt heilsufarsmat hjá fagaðila, fara í bólusetningu gegn árlegri inflúensu auk þess sem bankinn er í samstarfi við fagaðila sem þjónustar starfsfólk með það að markmiði að bæta heilsu þess. Annar liður í heilsueflingu starfsfólks eru styrkir til íþróttaiðkunar, styrkur vegna kaupa á sjónglerjum og möguleiki á sálfræðiþjónustu.

Bankinn hefur sett sér heilsu- og öryggisstefnu með það að markmiði að bæta lífsgæði og vinnuumhverfi starfsfólks og tryggja að lögum um heilsu- og öryggi sé framfylgt.

Lesa nánar um heilsu- og öryggisstefnuna 

97%

Heilsuvísitala
Arion banka

18%

starfsfólks nýttu
sér samgöngustyrk

60%

þeirra sem fengu boð í
heilsufarsskoðun þáðu boðið

86%

starfsfólks nýttu
sér íþróttastyrk

Fræðsla og starfsþróun

Fræðslustarf á árinu gekk vel þrátt fyrir áframhaldandi áhrif COVID-19. Bankinn leggur áherslu á að bjóða fjölbreytta fræðslu og þjálfun sem hentar fjölbreyttum hópi starfsfólks. Fræðsla á vegum bankans flokkast í þrjú þemu; faglega hæfni, lög og reglur og persónulega hæfni. Stór hluti námskeiða fór fram á Teams með góðum árangri og er starfsfólk almennt ánægt með það fyrirkomulag. Einnig voru haldin þrjú Arion stefnumót yfir árið. Arion stefnumót eru starfsmannafundir sem sendir eru út rafrænt þar sem farið er yfir stefnu bankans, mælikvarða, helstu markmið og áherslur.

Þessu til viðbótar eru vikulegir fræðslufundir fyrir allt starfsfólk þar sem farið er yfir það sem hæst ber hverju sinni og ársfjórðungslegar afkomukynningar og starfsdagar einstakra sviða. Starfsfólk er einnig hvatt til að sækja ráðstefnur, námskeið og fyrirlestra utan bankans.

Lesa nánar um fræðslustefnuna

104

Fræðsluviðburðir fyrir starfsfólk í boði á árinu

264

Rafrænir fyrirlestrar í fræðslukerfi bankans

7,6

Fjöldi fræðsluviðburða sem hver starfsmaður sótti að meðaltali á árinu

11

Fjöldi rafrænna fyrirlestra sem hver starfsmaður hlustaði á að meðaltali