64,8%
samdráttur á losun gróðurhúsalofttegunda vegna bifreiða í rekstri
Umhverfis- og loftslagsmál eru ofarlega á baugi hjá okkur í Arion banka. Við viljum tryggja heildstætt yfirlit yfir þau umhverfisáhrif sem hljótast af daglegri starfsemi okkar og lágmarka neikvæð áhrif. Við gerum okkur grein fyrir að mestu áhrifin sem bankar geta haft í tengslum við umhverfis- og loftslagsmál eru í gegnum lánveitingar og fjárfestingar og þá ábyrgð tökum við alvarlega.
Vel hefur gengið að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í eigin starfsemi bankans á síðastliðnum árum og höldum við áfram á þeirri braut. Fyrst eftir að Arion banki gerðist aðili að Loftslagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar árið 2015 var áhersla okkar að mestu inn á við, það er að segja á að auka vitund og þekkingu starfsfólks á umhverfis- og loftslagsmálum og að draga úr losun í okkar rekstri.
Við erum stolt af grænu vegferðinni okkar og nú sjást áherslur okkar á umhverfis- og loftslagsmál í sífellt meiri mæli í þjónustu- og vöruframboði bankans. Á árinu 2021 gaf bankinn út heildstæða græna fjármálaumgjörð og fór í sínar fyrstu grænu skuldabréfaútgáfur. Stýring fjármuna í átt að grænni uppbyggingu og hringrásarhagkerfi er afar þýðingarmikil í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og því ætlum við að feta þá braut áfram. Sjá nánari umfjöllun um græn fjármál og ábyrga bankastarfsemi.
Græn fjármál
Ábyrg bankastarfsemi
Í lok árs 2021 var sjálfbærniáhætta skilgreind sem ein af sex megináhættum bankans og fellur því undir áhættustýringarumgjörð bankans. Stjórn bankans samþykkti á árinu sjálfbærniáhættustefnu þar sem meðal annars kemur fram að bankinn leitist við að tryggja að starfsemi hans og þjónusta hafi ekki í för með sér neikvæð áhrif á fólk eða umhverfi. Einnig kemur þar fram að bankinn styðji aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum sem sett hefur verið fram með það að markmiði að standast skuldbindingar Parísarsamkomulagins og að metnaðarfull áform um kolefnishlutleysi árið 2040 náist.
Bankastjóri hefur skipað sjálfbærninefnd sem fer með ákvörðunarvald í tengslum við málaflokkinn. Í lok árs 2021 samþykkti nefndin uppfærða umhverfis- og loftslagsstefnu fyrir bankann og sömuleiðis ný og uppfærð markmið til ársins 2030.
Við viljum vera til fyrirmyndar í umhverfis- og loftslagsmálum og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif starfseminnar og losun gróðurhúsalofttegunda. Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru ein stærsta áskorun samtímans og nauðsynlegt að halda hlýnun jarðar innan 1,5 gráða. Við ætlum að leggja okkar af mörkum svo Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsamkomulaginu og öðrum innlendum og alþjóðlegum umhverfis- og loftslagssáttmálum og náð metnaðarfullu markmiði um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040.
Bankar gegna lykilhlutverki í því að fjármagna framfarir og við beinum sjónum okkar að fjármögnun verkefna sem snúa að sjálfbærri þróun og grænni innviðauppbyggingu.
Við gerum þá kröfu til okkar birgja að þeir taki mið af umhverfis- og loftslagsáhrifum í sinni starfsemi. Þegar við veljum á milli sambærilegra tilboða frá birgjum munu loftslags- og umhverfissjónarmið ráða ákvörðun okkar. Markmið bankans er að draga úr losun kolefnis og annarra gróðurhúsalofttegunda sem hlýst af eigin starfsemi um a.m.k. 55% fyrir árið 2030 frá viðmiðunarárinu 2015 og kolefnisjafna alla þá losun sem eftir stendur.
Við setjum okkur markmið og birtum árangur hvað varðar þá þætti sem við höfum mest áhrif á, svo sem innkaup, eigin rekstur og þjónustu við viðskiptavini. Með markvissum hætti munum við auka þekkingu starfsfólks á umhverfismálum og styðja við vegferð viðskiptavina okkar í átt að grænni framtíð í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.
Á árinu 2022 munum við setja okkur markmið um hlutfall grænna lánveitinga af heildarlánasafni til ársins 2030.
Staða: Lokið – verður endurskoðað árlega.
Hlutfall grænna lánveitinga sem falla undir græna fjármálaumgjörð Arion banka er nú um 11% af heildarlánsafni bankans sem nam í árslok um 936 milljörðum króna. Er það markmið bankans að koma því hlutfalli í að minnsta kosti 20% árið 2030. Með þessu markmiði hefur bankinn í hyggju að auka grænar lánveitingar á þann hátt að árlegur vöxtur grænnar lánabókar sé að jafnaði helmingi meiri en vöxtur lánabókar bankans í heild sinni. Markmið varðandi hlutfall grænna lánveitinga verður endurskoðað árlega með tilliti til þeirra tækifæra sem gefast á næstu árum til grænnar fjármögnunar og innleiðingar á flokkunarreglugerð Evrópusambandsins hér á landi. Er það von bankans að vöxturinn geti orðið enn hraðari.
Á árinu 2022 munum við setja okkur stefnu hvað varðar þær atvinnugreinar sem hafa mest áhrif í okkar lánveitingum með tilliti til loftslags- og umhverfissjónarmiða.
Staða: Ólokið.
Upphaflega var markmið okkar að setja stefnu varðandi þær atvinnugreinar sem hafa mest áhrif á umhverfi og loftslag árið 2020. Ákveðið var að seinka þessari vinnu og leggja áherslu á að ljúka við gerð grænnar fjármálaumgjarðar bankans. Græn fjármálaumgjörð bankans leit dagsins ljós um mitt ár 2021 og höfum við skilgreint markmið okkar varðandi sókn í grænum lánveitingum. Á árinu 2022 munum við halda áfram á okkar vegferð og setja okkur stefnur varðandi þær atvinnugreinar sem hafa mest áhrif á umhverfi og loftslagsbreytingar.
Við spyrjum okkar helstu birgja um umhverfis- og loftslagsáhrif af þeirra starfsemi.
Staða: Lokið – stöðugt í vinnslu.
Í umhverfis- og loftslagsstefnu bankans kemur fram að við gerum þá kröfu til birgja að þeir taki mið af umhverfis- og loftslagsáhrifum í sinni starfsemi og að þegar valið stendur á milli tveggja sambærilegra tilboða munu loftslags- og umhverfissjónarmið ráða ákvörðun okkar.
Innkaupareglur sem voru samþykktar á haustmánuðum 2020 tóku mið af þessu og hófst þá innleiðing á nýju birgjamati þar sem áhersla er lögð á frammistöðu birgja varðandi umhverfis- og loftslagsmál en einnig jafnréttismál og vinnurétt. Árið 2020 fóru allir stærstu birgjar sem bankinn hefur gert útvistunarsamning við í gegnum birgjamatið. Birgjamatið er lagt fyrir birgja yfir ákveðnum stærðarmörkum og höfðu 23% þeirra farið í gegnum matið í árslok 2021. Á árinu fóru 70% nýrra birgja, sem falla undir þessa skilgreiningu og eru með samning við bankann, í gegnum matið.
Á árinu 2022 ætlum við að hefja þá vinnu að meta kolefnisspor lánasafnsins til samræmis við aðferðafræði PCAF. Þegar við höfum náð góðri mynd af kolefnisspori lánasafnsins munum við setja okkur markmið um hvernig við getum dregið úr sporinu til ársins 2030 í samræmi við markmið Parísarsamkomulagsins.
Staða: Ólokið.
Í nóvember 2021 gerðist Arion banki aðili að Partnership for Carbon Accounting Financials (PCAF). Um er að ræða alþjóðlegan samstarfsvettvang fjármálafyrirtækja sem hefur það meginmarkmið að samræma mat á umfangi losunar gróðurhúsalofttegunda (GHL) sem fjármálafyrirtæki fjármagna í gegnum lánveitingar og fjárfestingar. Arion banki mun hefja vinnu við að meta kolefnisspor lánasafns bankans á árinu 2022 út frá þessari aðferðafræði.
Frá og með árinu 2023 mun bankinn ekki kaupa inn bíla nema þeir noti 100% endurnýjanlega orkugjafa.
Staða: Ekki komið á tíma – jákvæð framvinda.
76,5% bíla í rekstri bankans eru tengiltvinnbílar eða rafbílar. Orkuskiptin ganga því nokkuð vel fyrir sig varðandi bílaflota bankans. Frá 1. janúar 2023 verða ekki keyptir inn bílar fyrir reksturinn nema þeir gangi 100% fyrir endurnýjanlegum orkugjöfum.
Við ætlum að koma hlutfalli flokkaðs úrgangs í rekstri bankans í 90% fyrir árið 2023.
Staða: Ekki komið á tíma – jákvæð framvinda.
Markmiðið gengur samkvæmt áætlun varðandi rekstrarúrgang en erfiðlega gengur að ná þessu markmiði þegar kemur að framkvæmdaúrgangi. 77,2% rekstrarúrgangs eru nú flokkuð en aðeins 12,3% framkvæmdaúrgangs.
Markmið bankans er að draga úr losun kolefnis og annarra gróðurhúsalofttegunda sem hlýst af eigin starfsemi um a.m.k. 55% fyrir árið 2030 miðað við árið 2015 og kolefnisjafna alla þá losun.
Staða: Ekki komið á tíma – jákvæð framvinda.
Upphaflega var markmið bankans að draga úr losun vegna eigin starfsemi um 40% frá árinu 2015-2030, það er vegna húsnæðis og bíla. Í lok árs 2020 hafði bankinn þegar dregið úr losun um 34,7% og því þótti tímabært að uppfæra markmiðin og auka metnað. Nú stefnir bankinn á að draga úr losun um að minnsta kosti 55% til ársins 2030 og að kolefnisjafna þá losun sem eftir stendur. Í lok árs 2021 var losunin 37,6% minni en árið 2015. Bankinn hefur gert samning við Kolvið um kolefnisbindingu á móti losun í starfsemi bankans og annarri losun, svo sem vegna flugferða, leigubílaferða, sorps og samgangna starfsfólks til og frá vinnu. Kolviður gróðursetur um 5.000 tré til að vega upp á móti losun bankans á árinu 2021. Ekki er enn um vottaða kolefnisbindingu að ræða.
Við höfum gert grein fyrir árangri okkar varðandi stöðu og aðgerðir í umhverfis- og loftslagsmálum frá árinu 2016. Viðmiðunarár umhverfisuppgjörs bankans er árið 2015 og er markmið okkar að vera búin að draga úr losun í eigin rekstri um 55% árið 2030. Hér fyrir neðan má sjá helstu niðurstöður úr umhverfisuppgjöri ársins 2021. Ítarlegar niðurstöður uppgjörsins má finna í töflu fyrir ófjárhagslegar upplýsingar.
Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í eigin rekstri, þ.e. vegna bifreiða og húsnæðis, hefur dregist saman um 37,6% frá árinu 2015 (umfang 1 og 2). Þar af hefur heildarlosun vegna bifreiða dregist saman um 64,8% og vegna húsnæðis um 12,8%. Sem fyrr er helsta tækifærið í rekstri bankans til að draga enn frekar úr losun að hætta alfarið kaupum á eldsneyti fyrir bíla.
Við höfum sett okkur metnaðarfull markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til ársins 2030 og á hverju ári munum við fara í mótvægisaðgerðir til að kolefnisjafna reksturinn. Við erum í samstarfi við Kolvið sem gróðursetur um 5.000 tré til að vega upp á móti losun ársins 2021 vegna eigin reksturs, þ.e. húsnæðis og bíla, en einnig vegna flugferða og leigubílaferða, sorps og samgangna starfsfólks til og frá vinnu. Auk þess hefur Arion banki styrkt Skógræktarfélag Íslands myndarlega til fjölda ára og á árinu 2021 var undirritaður nýr samningur til þriggja ára við félagið.
Með aukinni gagnaöflun höfum við betri upplýsingar um aðkeypta þjónustu (umfang 3). Á árunum 2015-2018 bættist m.a. millilandaflug, flugferðir verktaka, flug með erlendum flugfélögum, leigubílaferðir og gagnaeyðing við umhverfisuppgjör bankans sem skýrir að hluta til af hverju skráð heildarlosun gróðurhúsalofttegunda vegna aðkeyptrar þjónustu hækkaði á tímabilinu.
Á árinu 2020 bættust samgöngur starfsfólks til og frá vinnu við umfang 3. Önnur losun í umfangi 3 hefur þó dregist saman á síðustu árum. Að frádregnum samgöngum starfsfólks er samdráttur í umfangi 3 76,6% á milli áranna 2015-2021.
Flugferðum fækkaði verulega á milli áranna 2019 og 2021, aðallega vegna heimsfaraldurs COVID-19. Á árinu 2021 bættust við upplýsingar um flug úr bókhaldskerfi bankans og því erum við komin með enn nákvæmari mynd af flugsamgöngum en áður.
Upplýsingar um flokkun sorps fyrir árið 2021 eru settar fram eftir tegund úrgangs, annars vegar hlutfall flokkaðs framkvæmdaúrgangs og hins vegar rekstrarúrgangs. Markmið bankans er að koma hlutfalli flokkaðs sorps í 90% fyrir árið 2023 og gengur það markmið samkvæmt áætlun varðandi rekstrarúrgang en erfiðlega gengur að ná því markmiði þegar kemur að framkvæmdaúrgangi.
Á árinu 2021 setti Arion banki sér fjarvinnustefnu. Stefnan felur í sér aukinn sveigjanleika varðandi viðveru á starfsstöð og fjölbreyttara starfsumhverfi í takt við breytta tíma. Aukin fjarvinna sparar tíma og dregur úr kolefnisspori vegna ferða starfsfólks til og frá vinnu. Markviss nýting fjarvinnu er þannig til hagsbóta fyrir starfsfólk, fyrirtækið og samfélagið í heild.
Á árinu bauðst starfsfólki að ferðast um á umhverfisvænni hátt með rafskútum eftir að Arion banki gerði samning við fyrirtækið Hopp um mitt árið. Starfsfólk nýtti sér rafskúturnar til að ferðast til og frá vinnu, fara á fundi eða sinna öðrum erindum á vinnutíma. Frá júní til ársloka voru rafskútuferðir starfsfólks 2.052 talsins. Við fögnum þessum góðu viðtökum starfsfólks og vilja þeirra til að ferðast með umhverfisvænni máta.
Í byrjun árs 2022 var gerð könnun meðal starfsfólks varðandi ferðavenjur til og frá vinnu þá daga sem starfsfólk mætti á starfsstöðvar. Klappir grænar lausnir sáu um könnunina og úrvinnslu hennar. Hér fyrir neðan má sjá helstu niðurstöður en samanburður á milli áranna 2020 og 2021 er birtur með þeim fyrirvara að annar aðili framkvæmdi könnunina fyrir bankann árið 2020. Munurinn á milli ára getur því að hluta til verið vegna ólíkrar aðferðafræði. Niðurstöðurnar sýna að meðallosun á hvern starfsmann vegna samgangna á árinu 2021 voru 276 kgCO2í sem er 2,8% minna en árið áður.
Niðurstöðurnar sýna að 85% starfsfólks nota fyrst og fremst einkabílinn til að komast í og úr vinnu, 11% hjóla eða ganga og 4% nota almenningssamgöngur. Meirihluti þeirra sem nota einkabílinn að staðaldri til og frá vinnur ekur á bílum sem knúnir eru áfram af jarðefnaeldsneyti, eða 67%, en vaxandi hluti eða 20% keyrir á tvinnbílum/tengiltvinnbílum og 13% á bílum sem eingöngu eru knúnir áfram af rafmagni. Heildarlosun vegna samgangna starfsfólks til og frá vinnu er 187,9 tCO2í árið 2021 og fellur undir umfang 3 í umhverfisuppgjöri bankans.
samdráttur á losun gróðurhúsalofttegunda vegna bifreiða í rekstri
samdráttur á losun gróðurhúsalofttegunda vegna húsnæðis
tré gróðursett
vegna losunar
starfsfólks nýttu sér
samgöngustyrk
tCO2tí
heildarlosun vegna ferðamáta starfsfólks
kgCOí
meðallosun starfsfólks vegna samgangna til og frá vinnu
Ítarlegt umhverfisuppgjör Arion banka fyrir árið 2021 er að finna í samantekt á ófjárhagslegum upplýsingum. Gögn og upplýsingar í uppgjörinu gilda fyrir árið 2021 og tengjast meginstarfsemi Arion banka, dótturfélög standa utan uppgjörsins að mestu leyti. Gögn frá árunum 2015-2020 eru sett fram til samanburðar en árið 2015 er viðmiðunarár bankans þegar kemur að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í starfsemi bankans til ársins 2030.
Í umhverfisuppgjöri bankans hefur náðst góður árangur í að safna saman gögnum með rafrænum gagnastraumum í gegnum kerfi Klappa grænna lausna. Þó eru útistandandi upplýsingar um starfsstöðvar þar sem bankinn deilir húsnæði með öðrum, svo sem í verslunarkjörnum, þegar kemur að sorphirðu, hita og rafmagni.
Gögn eru endurreiknuð aftur í tímann fyrir tímabilið 2015 til og með 2020 samkvæmt nýjustu upplýsingum. Af þessu hlýst ákveðið misræmi ef uppgjör þetta er borið saman við fyrri umhverfisuppgjör.
Upplýsingar um útblástur vegna samgangna starfsfólks byggja á niðurstöðum könnunar sem var unnin af Klöppum grænum lausnum.
Arionbanki.is notar vefkökur til að auðvelda þér að vafra um vefinn. Sjá notendaskilmála bankans.
Samþykkja