Einstaklingsþjónusta

Arion banki veitir einstaklingum vandaða og fjölbreytta fjármálaþjónustu hvar og hvenær sem er. Bankinn starfrækir 15 útibú auk þjónustuvers ásamt því að gera viðskiptavinum sínum kleift að sinna fjármálum sínum í gegnum netbanka, vef, app og aðrar stafrænar lausnir. Vörður tryggingar er dótturfélag bankans og býður einstaklingum hvers kyns tryggingar. Rík áhersla hefur verið á aukið framlag Arion banka til umhverfismála og í því skyni hefur verið lögð áhersla á grænar vörur bankans svo sem græn innlán, græn bílalán og græn íbúðalán.

Þægilegri bankaþjónusta

Þróun bankaþjónustu hefur verið hröð á undanförnum árum og COVID-19 faraldurinn hefur heldur hraðað þeirri þróun. Mikilvægi þess að geta sinnt sínum fjármálum hvar og hvenær sem er hefur sjaldan verið meira og því hefur þróun undanfarinna ára komið sér sérstaklega vel við þær aðstæður sem uppi hafa verið. Á árinu voru verklagsreglur um ábyrga vörustjórnun innleiddar þar sem áhersla er á að gæta hagsmuna viðskiptavina í þróun á vörum bankans og tryggja eins og kostur er að viðskiptavinir fái vörur og þjónustu við sitt hæfi.

Viðskiptavinir Arion banka hafa notið þess að búa við framúrskarandi stafrænar lausnir og 99% allra snertinga við bankann eru nú í gegnum leiðir eins og app og netbanka. Stærstur hluti eða 72% af sölu bankans fer jafnframt í gegnum þessar lausnir og samanburðarrannsóknir við erlenda banka hafa sýnt að Arion banki skipar sér í röð með fremstu bönkum í heiminum hvað þetta varðar. Arion banki hefur einnig forskot innanlands á sína samkeppnisaðila en Arion appið var samkvæmt könnun MMR valið besta bankaappið á Íslandi fimmta árið í röð að mati viðskiptavina allra bankanna.

Heimsóknum í útibú fækkaði verulega á árinu eða um tæpan helming frá 2019. Stór ástæða fækkunarinnar er vegna COVID-19 og var gert ráð fyrir að það væri tímabundin fækkun. Heimsóknir síðasta sumar, þegar útibúin voru opin án takmarkana, í samanburði við sama mánuð árið á undan, benda til þess að fækkun heimsókna sé varanleg. Einnig hefur stafrænum notendum fjölgað mjög eða um 21% frá árslokum 2020 til lok árs 2021 ásamt verulegri aukningu í mánaðarlegri notkun á Arion appinu. Hlutverk útibúa breytist jafnframt hratt eftir því sem sjálfvirkni eykst í almennum bankaviðskiptum og með aukinni sjálfvirkni lána. Þetta hefur leitt til þess að hlutverk útibúa er í auknum mæli að veita ráðgjöf tengda þjónustu bankans og aðstoð við stærri ákvarðanir og flóknari mál.

Heimsóknir í útibú
Fjöldi heimsókna
Aukning stafrænnar þjónustu
Fjöldi snertinga

Yfir 200 milljarðar í ný íbúðalán

Met var slegið í lánveitingu íbúðalána en rúmlega 211 milljarðar voru lánaðir í ný íbúðalán á árinu. Fjármögnun íslenskra heimila hefur tekið stakkaskiptum á undanförnum árum síðan Arion banki, fyrstur banka á Íslandi, fór að bjóða upp á óverðtryggð lán árið 2011. Nú er svo komið að 64% íbúðalánasafns Arion banka eru óverðtryggð en voru eingöngu um 25% í árslok 2016.

Undanfarin ár hefur Arion banki keppst við að bjóða upp á nýjar vörur til að koma til móts við kröfur viðskiptavina bankans, og síðasta ár var engin undantekning. Býður bankinn nú upp á sumarleyfi íbúðalána þar sem viðskiptavinum bankans býðst að sleppa einni afborgun yfir sumarmánuðina og leggst greiðslan þá í staðinn á höfuðstól lánsins. Einnig býður bankinn græn íbúðalán þegar um er að ræða umhverfisvottað íbúðarhúsnæði og veittur er 100% afsláttur á lántökugjaldi. Arion banki bauð fyrstur banka upp á íbúðalán fyrir einstaklinga með tekjur í erlendri mynt árið 2020. Vel hefur gengið að veita slík lán á árinu og hafa þau gert íslendingum sem starfa erlendis og einnig erlendum aðilum sem vilja eignast heimili á Íslandi kleift að fjármagna íbúðarhúsnæði á góðum kjörum. Þessi nýjung hefur komið sér vel samhliða þróun í átt að störfum án staðsetningar og aukinni heimavinnu.

Ný íbúðalán
Milljarðar króna

Vinsæl bílalán

Mikil útlánaaukning var hjá bílafjármögnun á árinu og jukust ný bílalán um 43% frá fyrra ári. Samtals námu ný bílalán 8,9 milljörðum og hefur aldrei verið lánað jafnmikið á einu ári frá stofnum bílafjármögnunar Arion banka árið 2012. Nettó aukning lánasafns nam 26% á árinu og tæplega 900 nýir viðskiptavinir komu í hóp ánægðra viðskiptavina. Þennan góða árangur má helst rekja til samkeppnishæfra kjara og aukins sveigjanleika í bílafjármögnun.

Almennt er sala nýrra bíla til einstaklinga að taka við sér eftir talsverða niðursveiflu árið 2020 og var 14% aukning á nýskráningum bifreiða til almennrar notkunar á árinu 2021. Hlutfall umhverfisvænni bíla nam 67% af öllum nýskráðum bílum árið 2021 og hlutfall grænna bílalána í lánasafni Arion banka, þ.e. lána til kaupa á rafmagnsbílum og bílum sem nota að hluta til endurnýjanlega orkugjafa, jókst úr 17% í 30% á árinu.

Bílalán
Milljarðar króna

 

Áframhaldandi vöxtur innlána

Á árinu fjölgaði talsvert þeim einstaklingum sem fengu laun sín greidd inn á bankareikning hjá Arion banka. Um mitt ár 2020 kynnti Arion banki til leiks grænan innlánsreikning sem ber heitið Grænn vöxtur. Hafa móttökur reikningsins verið langt umfram væntingar og óx hann um 64% á árinu 2021. Með því að leggja sparnaðinn inn á Grænan vöxt styðja viðskiptavinir og Arion banki saman við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun númer sex, sjö, níu, ellefu, tólf, þrettán, fjórtán og fimmtán. 

Frá því COVID-19 faraldurinn skall á hafa innlán aukist verulega og er árleg hækkun langt yfir sögulegri hækkun, ekki bara þegar horft er til innlána einstaklinga heldur er sömu sögu að segja þegar kemur litlum og og meðalstórrum fyrirtækjum. Innlán einstaklinga jukust um 19 milljarða króna sem er rúmlega tvöfalt meiri aukning en fyrri ár.

Premíu þjónusta bankans

Arion Premía er ný þjónusta sem bankinn setti á laggirnar á árinu til þess að halda sérstaklega utan um þjónustu við eignameiri viðskiptavini bankans. Markmið þjónustunnar er að tryggja að þessi hópur viðskiptavina, sem er með umtalsverð innlán hjá bankanum og/eða verðbréf í vörslu hans, njóti góðra kjara og bestu þjónustu hverju sinni. Arion premía veitir viðskiptavinum aðgang að sérstöku viðmóti í appi, aukinn aðgang að skammtímafyrirgreiðslu, aðgang að Eignavalssjóðum Stefnis og betri kjörum á vörum bankans hverju sinni. Einnig tryggir aðild að Premíu beint samband við sérstakt teymi sérfræðinga bankans sem laga þjónustuna að þörfum hvers og eins viðskiptavinar. Um áramótin voru yfir 2.000 viðskiptavinir bankans í Arion premíu þjónustunni.

Aukin sjálfvirkni í lánveitingum og ábyrgðum

Haldið var áfram á þeirri vegferð að auka sjálfvirkni í afgreiðslu lánaumsókna viðskiptavina, svo sem yfirdráttarheimilda, kortaheimilda o.fl. Ein stærsta ástæðan fyrir því að þetta er í svo miklum forgangi er að sjálfvirk afgreiðsla veitir viðskiptavinum svar við sinni beiðni samstundis. Sjálfvirk afgreiðsla veitir því í raun mun betri upplifun fyrir viðskiptavini. Á árinu 2021 voru sjálfvirkt samþykkt lán tæplega 83% af veittum slíkum lánum en 75% árið 2020.

Samstarf við Leiguskjól í anda opinnar bankastarfsemi hefur gengið mjög vel á árinu en alls hefur Leiguskjól gefið út fyrir hönd bankans yfir 1.700 ábyrgðir að fjárhæð um 850 milljónir króna. Þetta er gott dæmi um velheppnað samstarf við sprotafyrirtæki sem skapar ávinning fyrir bankann, viðskiptavini og sprotafyrirtækið sjálft.

Tryggingar – samstarf Arion banka og Varðar

Viðskiptavinir geta nálgast tryggingar Varðar í gegnum þjónustuleiðir Arion banka og Varðar og var sala á tryggingum Varðar afar góð á árinu. Í lok ársins var samstarf Arion banka og Varðar aukið enn frekar í því skyni að bæta upplifun viðskiptavina og gera þeim kleift að fá alhliða fjármálaþjónustu á einum stað.

Árið var einnig notað til að þróa Tekjuvernd sem er einstök þjónusta fyrir viðskiptavini Arion banka og Varðar og sýnir á einfaldan hátt fjárhagslega afkomu þeirra við mismunandi aðstæður sem upp geta komið, svo sem andlát, slys, örorku eða starfslok.

Kortaveltan tekur aftur við sér

Arion banki býður upp á fjölbreytt úrval af debet- og kreditkortum og hafa kortin mismunandi fríðindi og ferðatryggingar. Nýsala korta tók vel við sér á vormánuðum 2021 eftir mikla lægð í COVID-19. Salan helst í hendur við aukinn ferðavilja viðskiptavina.

Velta greiðslukorta jókst um 13% á milli ára eftir nokkurn samdrátt 2020. Veltan á síðasta ársfjórðungi jókst um 21% á milli ársfjórðunga og hefur aldrei verið meiri. Erlenda veltan tók sérstaklega kipp og jókst um 37% milli ára og var í lok síðasta ársfjórðungs 2021 orðin hærri en hún var á sama tímabili 2019. Þarna er ekki eingöngu um að ræða aukinn ferðavilja eftir COVID-19, því netverslun er alltaf að aukast og er orðin stór þáttur í verslun viðskiptavina, sér í lagi jólaverslunin. Hlutfall netviðskipta af erlendri verslun á fjórða ársfjórðungi 2021 er tæp 60%. Innlend netverslun hefur einnig aukist verulega og er orðin meiri en erlend netverslun í krónum talið, en netverslun í heild jókst um 24% milli ára.