Markaðir

Arion banki veitir margvíslega þjónustu þegar kemur að markaðsviðskiptum, sjóðastýringu og eignastýringu. Eignastýringarþjónusta bankans snýr að einkabankaþjónustu, eignastýringu fyrir fagfjárfesta og rekstri lífeyrissjóða. Stefnir, dótturfélag Arion banka, er sjálfstætt starfandi fjármálastofnun sem annast stýringu á fjölbreyttu úrvali verðbréfa- og sérhæfðra sjóða. Arion banki, ásamt dótturfélögum, er leiðandi í eignastýringu á Íslandi með um 1.352 milljarða króna í stýringu.

Markaðsviðskipti

Arion banki sinnir miðlun verðbréfa fyrir innlenda og erlenda viðskiptavini bankans. Sérfræðingar bankans veita aðstoð og milligöngu um viðskipti með skráð verðbréf á öllum helstu verðbréfamörkuðum heims. Til viðbótar aðstoðar Arion banki viðskiptavini við kaup í sjóðum Stefnis og sjóðum í rekstri alþjóðlegra fjármálafyrirtækja.

Viðskiptavinir leita í ríkum mæli til bankans vegna markaðsviðskipta sinna og hefur bankinn undanfarin ár haft sterka stöðu í veltu verðbréfa á Aðalmarkaði Nasdaq á Íslandi. Á árinu 2021 var bankinn, sjötta árið í röð, með stærstu hlutdeild kauphallaraðila á hlutabréfamarkaði. Arion banki var sömuleiðis með stærstu hlutdeildina á First North vaxtarmarkaðinum og næststærstu hlutdeildina á skuldabréfamarkaði Nasdaq á Íslandi.

Markaðshlutdeild og sæti Arion banka í hlutabréfum á Aðalmarkaði Nasdaq Ísland

Líflegur verðbréfamarkaður

Velta í viðskiptum með hlutabréf á Nasdaq á Íslandi jókst um 77% milli ára en velta í skuldabréfaviðskiptum dróst saman um 30%. Samanlagt virði skráðra hlutabréfa á Nasdaq á Íslandi jókst um tæplega 1.000 milljarða á árinu 2021 en hlutabréfaverð hækkaði verulega auk þess sem nýskráningar Íslandsbanka, Síldarvinnslunnar, Play og Solid Clouds settu svip sinn á árið.

Markaðsvirði skráðra skuldabréfa jókst um 6% á árinu. Lánsfjárþörf opinberra aðila var óvenjumikil árinu og var henni að miklu leyti mætt með útgáfu markaðsverðbréfa og mikilvægir áfangar náðust í uppbyggingu fyrirtækjaskuldabréfamarkaðar. Fyrsta óveðtryggða útgáfa rekstrarfélags í liðlega áratug leit dagsins ljós í júní þegar Arion banki hafði umsjón með útboði Iceland Seafood International. Þá er markaður með sjálfbær skuldabréf að festa sig í sessi.

Áhersla á vöruþróun og verðbréfaviðskipti í Arion appinu

Áhugi almennings á hlutabréfum hefur vaxið hröðum skrefum. Árið 2021 opnaði Arion banki fyrir verðbréfa- og sjóðaviðskipti almennings í gegnum appið og hefur sú þjónusta notið mikilla vinsælda og sívaxandi hópur fjárfesta nýtir sér þessa hagkvæmu leið til fjárfestingar.

Árið 2021 opnaði Arion banki fyrir verðbréfa- og sjóðaviðskipti almennings í gegnum appið og hefur sú þjónusta notið mikilla vinsælda og sívaxandi hópur fjárfesta nýtir sér þessa hagkvæmu leið til fjárfestingar.

Viðskiptavinir Arion banka, bæði einstaklingar og lögaðilar, geta í dag stofnað almenn vörslusöfn á einfaldan, fljótlegan og öruggan máta með rafrænni undirritun samninga og annarra skjala. Viðskiptavinir hafa tekið þessari þjónustu vel, þar sem hún gerir þeim mun auðveldara að undirrita skjöl, hvar og hvenær sem er, ef rafræn skilríki eru fyrir hendi. Þessar stafrænu lausnir komu sér einstaklega vel á árinu fyrir viðskiptavini.

Megináhersla Arion banka í verðbréfa- og sjóðaviðskiptum er nú sem fyrr að veita stækkandi hópi viðskiptavina góða þjónustu og aðgang að framúrskarandi þekkingu og lausnum. Áfram verður lögð áhersla á vöruþróun til að skapa viðskiptavinum fleiri tækifæri til ávöxtunar og áhættudreifingar. Á árinu var MiFID II tilskipun Evrópusambandsins og MiFIR-reglugerð innleidd á íslenskan verðbréfamarkað sem leiddi til ýmissa breytinga á starfsháttum aðila á verðbréfamarkaði. Markmið bankans var að nýta þessar breytingar til hagsbóta fyrir viðskiptavini m.a. í gegnum stafrænar lausnir.

Sjóðastýring

Árangur sjóða viðskiptavinum til góða

Innlendir hlutabréfasjóðir skiluðu framúrskarandi ávöxtun bæði fyrir almenning og fagfjárfesta. Stefnir - Innlend hlutabréf skilaði hæstri ávöxtun árið 2021, eða rúmum 49%, af þeim sérhæfðu sjóðum fyrir almenning sem ekki nýtir lántöku eða afleiður. KF Global Value, erlendur hlutabréfasjóður í stýringu Stefnis var einnig með mjög góða ávöxtun eða 35,5% sem er 6,2% yfir heimsvísitölu hlutabréfa (MSCI World).

Stefnir – Samval sem er einn elsti og fjölmennasti sjóður á Íslandi fagnaði 25 ára farsælli sögu á haustmánuðum 2021. Sjóðurinn hefur á að skipa góðri ávöxtunarsögu allt frá stofnun. Árið 2021 var næstbesta ár í sögu sjóðsins en sjóðurinn skilaði tæplega 33% ávöxtun til þeirra 4.600 sjóðfélaga sem voru eigendur að sjóðnum í árslok. Árangur á skuldabréfamörkuðum var viðunandi í umhverfi hækkandi vaxta.

Nýir sjóðir Stefnis

Stefnir stofnaði fimm nýja sjóði á árinu. Bar þar hæst stofnun fjórða SÍA framtakssjóðsins, en skerða þurfti áskriftir vegna umframeftirspurnar i sjóðinn. Einnig var fyrsti lánasjóðurinn SÍL1 stofnaður, sem gefur út skráð skuldabréf í Kauphöll og mætir hann þörfum fjárfesta sem sækja í vaxtaberandi kröfur íslenskra lögaðila.

Jafnframt stofnaði félagið fyrsta sjóð sinnar tegundar á Íslandi, Stefni – Arðgreiðslusjóð, en hann fjárfestir eingöngu í þeim innlendu félögum sem greiða arð eða er fyrirsjáanlegt að munu greiða arð, sjóðurinn stendur svo skil á uppsöfnuðum arðgreiðslum til sjóðfélaga.

Félagið stofnaði einnig tvo sjóði í flokki ábyrgra fjárfestingakosta, Stefni – Grænaval og Stefni - Sjálfbær skuldabréf, auk þess sem áherslum var breytt hjá Stefni – Scandinavian Fund ESG í þá átt að honum er stýrt samkvæmt aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga. Viðtökur og fjárfesting í þessum sjóðum var mjög góð á árinu.

Eignastýring

Þegar kemur að eignastýringu stýrir bankinn fjármunum fyrir hönd viðskiptavina samkvæmt fyrir fram ákveðinni fjárfestingarstefnu hvers og eins. Eignastýring byggist á trausti og ábyrgð gagnvart viðskiptavinum, hagsmunaaðilum og samfélaginu öllu.

Heildareignir í stýringu hjá Arion banka og dótturfélögum
Milljarðar króna
Eignaskipting

Samfélagsábyrgð og ábyrgar fjárfestingar

Sem leiðandi afl á innlendum fjármálamarkaði tekur bankinn hlutverk sitt alvarlega og leggur áherslu á uppbyggingu þekkingar á sviði sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga. Árið 2018 innleiddi Arion banki verklag ábyrgra fjárfestinga í starfshætti sína sem felur í sér að við eignastýringu er horft til þriggja grunnþátta sjálfbærni; umhverfis, félagslegra þátta og stjórnarhátta (UFS). Þannig er ekki einvörðungu horft til fjárhagslegra þátta heldur einnig annarra þátta sem taldir eru viðeigandi við greiningu á fjárfestingum og uppbyggingu eignasafna.

Síðastliðin ár hefur Arion banki unnið að bættri ófjárhagslegri upplýsingagjöf innlendra skráðra félaga á Aðallista Kauphallarinnar með virkum samtölum við félögin. Arion banki er þátttakandi í mótun og þróun ábyrgra fjárfestinga á Íslandi og á fulltrúa í vinnuhópum á vegum IcelandSIF (e. Iceland Sustainable Investment Forum) og var jafnframt einn af stofnaðilum samtakanna. Bankinn er aðili að Meginreglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar, United Nations Principles of Responsible Investments (PRI), sem eru virk alþjóðleg samtök eignastýringaraðila og fjármagnseigenda um málefni ábyrgra fjárfestinga. Aðild að samtökunum felur í sér að bankinn undirgengst sex meginreglur samtakanna um ábyrgar fjárfestingar auk þess að skila gagnsæisskýrslu til samtakanna um hvernig staðið er að ábyrgum fjárfestingum.

 

 

 

Aðgerðir Arion banka á sviði ábyrgra fjárfestinga styðja vel við sjálfbærnistefnu bankans og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem snúa að jafnrétti kynjanna, góðri atvinnu og hagvexti, nýsköpun og uppbyggingu og aðgerðum í loftslagsmálum.

Einkabankaþjónusta – persónuleg þjónusta

Einkabankaþjónusta Arion banka er víðtæk persónuleg fjármálaþjónusta fyrir efnameiri einstaklinga, fyrirtæki, sjóði og stofnanir. Einkabankaþjónusta felur í sér fjármálaþjónustu sniðna að þörfum hvers viðskiptavinar. Hver viðskiptavinur hefur sinn eigin viðskiptastjóra sem heldur utan um eignasafn viðskiptavinarins og fjárfestir með markmið hans að leiðarljósi. Viðskiptastjórinn fylgist náið með hreyfingum á markaði og gerir breytingar samkvæmt fyrir fram ákveðinni fjárfestingarstefnu sem mótuð er í samræmi við þarfir viðskiptavinarins.

Viðskiptavinir í einkabankaþjónustu eru í góðu sambandi við viðskiptastjóra sinn með símtölum, tölvupóstum eða reglulegum fundum. Ítarlegt yfirlit um stöðu og ávöxtun er sent ársfjórðungslega en auk þess geta viðskiptavinir nálgast greinargóð yfirlit í netbanka Arion banka. Viðskiptavinir einkabankaþjónustu eru í premíu þjónustu bankans og fá bestu kjör sem eru í boði hjá bankanum hverju sinni.

Árið 2021 var viðskiptavinum einkabankaþjónustu farsælt og nutu þeir góðrar ávöxtunar á árinu. Samskiptamáti við viðskiptavini var, í ljósi breyttra aðstæðna vegna COVID-19, sniðinn að þörfum hvers og eins, hvort sem það voru símtöl, rafrænir fundir eða hefðbundnir fundir. Margir nýir viðskiptavinir komu í þjónustuna og ljóst að mikill áhugi er á einkabankaþjónustu Arion banka bæði meðal einstaklinga og lögaðila.

Eignastýring fyrir fagfjárfesta

Arion banki veitir fagfjárfestum umfangsmikla og persónulega þjónustu. Nokkrir af stærstu fagfjárfestum landsins nýta þjónustu Arion banka sem sér um stýringu eignasafna þeirra, að hluta eða í heild.

Áhersla er á fagleg og skipuleg vinnubrögð og virka eignastýringu milli og innan eignaflokka. Þjónustan er sniðin að þörfum og kröfum hvers fagfjárfestis. Áherslur eignasafna eru aðlagaðar hverju sinni í takt við breytingar á markaði í samræmi við fjárfestingarstefnu sem viðskiptavinurinn skilgreinir.

Áhersla er á fagleg og skipuleg vinnubrögð og virka eignastýringu milli og innan eignaflokka. Þjónustan er sniðin að þörfum og kröfum hvers fagfjárfestis.

Þjónusta bankans við fagfjárfesta felst meðal annars í reglulegum og virkum samskiptum þar sem farið er yfir helstu hreyfingar, þróun og horfur. Bankinn aðstoðar fjárfesta einnig við mótun fjárfestingarstefnu, stefnu um ábyrgar fjárfestingar, hluthafastefnu sem og framkvæmd og upplýsingagjöf um framfylgni stefnanna.

Á síðastliðnu ári náðist góður árangur í stýringu eignasafna fagfjárfesta. Áskoranir fylgdu breyttum aðstæðum í ljósi heimsfaraldurs en samskipti við fjárfesta gengu vel fyrir sig, þótt þau væri með nokkuð breyttu sniði.

Rekstur og stýring lífeyrissjóða – stafræn þjónusta og betra aðgengi að upplýsingum

Arion banki sérhæfir sig í rekstri lífeyrissjóða og stýringu eigna fyrir lífeyris- og séreignarsjóði og aðra fagfjárfesta.

  • Frjálsi lífeyrissjóðurinn, stærsti frjálsi lífeyrissjóður landsins, hefur átt í farsælu samstarfi við Arion banka og forvera hans allt frá árinu 2001. Frjálsi býður upp á bæði skyldusparnað og viðbótarsparnað og er sérstaða sjóðsins einkum fólgin í almennu valfrelsi og séreignarmyndun skyldusparnaðar sem leiðir af sér aukinn erfanleika og sveigjanleika í útgreiðslum. Frjálsi hefur notið mikillar velgengni síðustu ár, m.a. hlotið 13 alþjóðleg verðlaun frá hinu virta fagtímariti IPE, fleiri verðlaun en nokkur annar íslenskur lífeyrissjóður. Árið 2021 var farsælt fyrir Frjálsa en nafnávöxtun fjárfestingarleiða sjóðsins var á bilinu 7,4%-20,7% og var það Frjálsi Áhætta sem skilaði hæstu ávöxtuninni. Um 23 þúsund sjóðfélagar velja að greiða í Frjálsa og var stærð hans í lok árs rúmlega 400 milljarðar króna.
  • Lífeyrisauki, viðbótarsparnaður Arion banka, og stærsti séreignarsjóður landsins sem eingöngu ávaxtar viðbótarsparnað, var stofnaður af forvera Arion banka árið 1999. Sérstaða sjóðsins er fjölbreytt úrval fjárfestingarleiða, alls sjö leiðir auk Ævilínu. Árið 2021 var ávöxtun með ágætum í leiðum Lífeyrisauka en nafnávöxtun fjárfestingarleiða var á bilinu 4,2%-19,8%. Um 23 þúsund sjóðfélagar velja að greiða í Lífeyrisauka og var stærð hans í lok árs um 125 milljarðar króna.
  • Aðrir lífeyrissjóðir í rekstri og stýringu hjá eignastýringu Arion banka eru EFÍA, Lífeyrissjóður Rangæinga og LSBÍ.
  • Aðrir viðskiptavinir í eignastýringu eru tryggingafélagið Vörður ásamt fleiri fagfjárfestum.

Þegar kemur að lífeyrismálum leggur Arion banki mikla áherslu á að efla sjálfsafgreiðslu og aðra stafræna þjónustu við viðskiptavini. Sjálfsafgreiðslan fer einkum fram í Arion appinu en einnig á Mínum síðum sjóðanna. Í Arion appinu býðst viðskiptavinum yfirsýn yfir lífeyrissparnað sinn og tækifæri til sjálfsafgreiðslu, en þar er hægt að gera samning um lífeyrissparnað og framkvæma helstu aðgerðir á einfaldan hátt. Viðbrögð viðskiptavina hafa ekki látið á sér standa og fór fjöldi nýrra lífeyrissamninga í appinu langt fram úr væntingum árið 2021. Arion appið færir lífeyrissparnaðinn nær eigendum sínum og eykur áhuga þeirra og vitneskju um sparnaðinn. Dæmi um aðra stafræna þjónustu er sjálfvirkt netspjall og aukin upplýsingagjöf á vefsíðum sjóðanna. Á næstu misserum munu fleiri nýjungar bætast við.

Á hefðbundnum opnunartíma er aðgangur að lífeyrisráðgjöfum gegnum netspjall, síma og tölvupóst. Boðið er upp á fundi í gegnum fjarfundabúnað eða í höfuðstöðvum bankans. Til að nýta tíma viðskiptavina og ráðgjafa sem best er lögð áhersla á fyrirframbókaða fundi. Hefur þessi aukna áhersla á sjálfvirknivæðingu og fjarfundi mælst vel fyrir á tímum heimsfaraldurs.

Áframhaldandi ávinningur viðskiptavina

Starfsfólk Arion banka og Stefnis mun áfram leitast við að skapa og finna fjárfestingarkosti fyrir viðskiptavini til að ávaxta fjármuni þeirra eins og best verður á kosið. Áfram verður unnið að því að skapa ávinning fyrir viðskiptavini með góðri þjónustu, ávöxtun, faglegum vinnubrögðum og markvissri áhættustýringu.