Stjórnarháttayfirlýsing Arion banka fyrir árið 2021
Arion banki er íslenskt hlutafélag, sem skráð er á hlutabréfamarkað Nasdaq Íslandi og Nasdaq Stokkhólmi. Stjórn bankans birtir samhliða ársreikningi árlega yfirlýsingu um stjórnarhætti. Stjórnarhættir vísa til ábyrgða mismunandi stjórnareininga bankans og hvernig ákvarðanataka fer fram, í samræmi við gildandi lög og reglur. Hluthafafundur Arion banka kýs stjórn bankans, sem ræður bankastjóra og hefur eftirlit með að skipulag og starfsemi bankans sé í réttu og góðu horfi. Bankastjóri annast daglegan rekstur bankans og kemur fram fyrir hönd bankans að því marki. Bankastjóra ber að fylgja viðeigandi löggjöf, samþykktum bankans og þeirri stefnu og fyrirmælum sem stjórn hefur gefið. Þá ber bankastjóri ábyrgð á að innleiða stefnur sem stjórn bankans samþykkir.
Grundvöllur að stjórnarháttum Arion banka er annars vegar samþykktir bankans, sem hluthafafundur samþykkir, og hins vegar stefnur og fyrirmæli sem stjórn bankans samþykkir. Hér má tiltaka starfsreglur stjórnar, starfsreglur undirnefnda stjórnar, og stefnur er lúta að skilvirku skipulagi og stýringu á áhættu í starfsemi bankans. Stefnur um áhættustýringu eru endurskoðaðar árlega og þegar þurfa þykir. Fyrirtækjamenning, viðskiptastefna bankans og innri verkferlar eru sömuleiðis veigamikill þáttur stjórnarhátta. Með því að iðka góða stjórnarhætti og stuðla að jákvæðri fyrirtækjamenningu er hlúð að traustum og heiðarlegum samskiptum stjórnar bankans, hluthafa, viðskiptavina, og annarra haghafa, svo sem starfsmanna bankans og almennings. Góðir stjórnarhættir leggja grunninn að ábyrgri stjórnun og ákvarðanatöku, og sjálfbærri langtímaarðsemi í rekstri bankans. Stjórn bankans leggur ríka áherslu á góða stjórnarhætti og endurskoðar stjórnarhætti sína reglulega á grundvelli viðurkenndra viðmiða um stjórnarhætti.
Meginþáttur í stjórnarháttum fjármálafyrirtækja felst í árangursríkri stýringu á áhættum sem óhjákvæmilega koma upp í starfsemi þeirra. Um áhættustýringu bankans er nánar fjallað í þessari yfirlýsingu, árs- og sjálfbærniskýrslu bankans, og Pillar 3 áhættuskýrslu. Að koma á og viðhalda tryggu eftirlitskerfi með áhættu er lykiláskorun þegar kemur að traustum rekstri fjármálafyrirtækja.
Stjórnarháttayfirlýsing Arion banka fyrir árið 2021 er byggð á löggjöf, reglugerðum og viðurkenndum viðmiðunarreglum og leiðbeiningum sem eru í gildi þegar stjórn samþykkir ársreikning bankans.
Starfskjarastefna Arion banka
Aðalfundur Arion banka samþykkir árlega starfskjarastefnu fyrir félagið, þar sem fram koma meginsjónarmið og atriði sem stjórn bankans og framkvæmdastjórn skulu horfa til, m.a. í tengslum við ákvörðun starfskjara.
Samkvæmt starfskjarastefnu sem samþykkt var á aðalfundi bankans árið 2021 skal stefnt að því að bjóða á hverjum tíma samkeppnishæf laun til að bankinn geti laðað til sín og haldið í framúrskarandi starfsfólk og að störf hjá bankanum séu eftirsóknarverð í augum hæfra einstaklinga.
Við framkvæmd starfskjarastefnunnar er haft að leiðarljósi að hún stuðli ekki að óeðlilegri áhættutöku heldur hvetji til þess að langtímasjónarmiða sé gætt og tryggi heilbrigðan rekstur bankans. Starfskjarastefnan er liður í að gæta langtímahagsmuna eigenda bankans, starfsfólks, viðskiptavina og annarra hagsmunaaðila með skipulegum og gagnsæjum hætti.
Helstu atriði í tengslum við framkvæmd starfskjarastefnu bankans árið 2021 eru:
- Samkvæmt launakönnun Intellecta greiðir Arion samkeppnishæf laun en er ekki leiðandi á markaðnum. Meðallaunahækkun í bankanum var 4,7% milli ára en almenn hækkun launavísitölu var 8,3%.
- Samkvæmt ákvörðun aðalfundar bankans árið 2020 var kaupréttarkerfi sett á laggirnar til fimm ára fyrir starfsfólk bankans. Alls undirrituðu 628 starfsmenn kaupréttarsamninga við bankann í febrúar 2021. Kerfið byggir á ákvæðum tekjuskattslaga og telst til fastra starfskjara starfsmanna. Öllu starfsfólki stendur fyrsta árið til boða að kaupa hlutabréf í bankanum fyrir að hámarki kr. 600.000. Þessi upphæð mun að hámarki nema 1.500.000 kr. frá og með árinu 2023, til samræmis við breytingar á tekjuskattslögum og ákvörðun aðalfundar bankans árið 2021. Fyrsta árið mun kerfið að hámarki fela í sér kauprétti á 3,5 milljónum hluta og eftir það að hámarki 7,1 milljón hluta á ári. Alls geta því kaupréttir vegna kaupréttakerfisins að hámarki numið um 32 milljónum hluta á fimm ára tímabili. Bankinn horfir meðal annars til skuldbindinga vegna kaupréttarkerfisins í tengslum við eignarhald á eigin bréfum og kostnaður bankans tekur þar af leiðandi mið af því. Alls nýttu 541 starfsmaður sér kaupréttinn í febrúar 2022 og keyptu hlutabréf í bankanum fyrir 600 þúsund krónur hver.
- Stjórn bankans samþykkti nýtt kaupaukakerfi árið 2020 sem kom til framkvæmda árið 2021, byggt á fjölbreyttum mælikvörðum og árangri bankans í heild. Öllu fastráðnu starfsfólki, að undanskildu starfsfólki eftirlitseininga, stendur til boða að taka þátt í kerfinu en yfirmarkmið þess er að skila betri arðsemi en keppinautar gera að meðaltali. Meirihluti starfsfólks getur fengið allt að 10% af árslaunum greidd í kaupauka í formi reiðufjár og án frestunar. Stjórnendur og það starfsfólk sem hefur mestu áhrifin á kostnað og tekjur bankans getur fengið allt að 25% af árslaunum í kaupauka í formi hlutabréfa í bankanum. Þessi hópur telur um 1/6 starfsfólks og hlutabréf sem þetta starfsfólk fær í hendur eru háð sölubanni/frestun að fullu leyti í þrjú ár. Bankinn horfir meðal annars til skuldbindinga vegna kaupaukakerfisins í tengslum við eignarhald á eigin bréfum og kostnaður bankans tekur þar af leiðandi mið af því.
Reglur kerfisins eru aðgengilegar á heimasíðu bankans.
- Engir samningar um sérstakar starfslokagreiðslur voru gerðir við stjórnendur á árinu 2021.